Það er óhætt að segja að KA/Þór hafi ráðið lögum og lofum á gólfi KA heimilisins þegar stelpurnar tóku á móti Aftureldingu í Grill 66 deildinni í gær. Þær gáfu tóninn strax í upphafi og eftir fimm mínútna leik var staðan orðin 4-0 fyrir heimakonur og síðan 7-1 eftir tíu mínútur.
Í hálfleik var munurinn orðinn tíu mörk, 15-5 og ljóst að eitthvað mikið þyrfti að gerast til að einhver spenna yrði í leiknum.
KA/Þór gaf hins vegar ekkert eftir í seinni hálfleiknum og þegar tíu mínútur voru til leiksloka var munurinn orðinn fjórtán mörk, 23-9. Þá slökuðu heimakonur lítillega á klónni og Afturelding nýtti það til að laga lítillega stöðuna þar sem þær skoruðu sex mörk gegn þremur og lokatölur því öruggur ellefu marka sigur, 26-15.
Líf og fjör á hliðarlínunni hjá KA/Þór
Liðið átti allt flottan leik og dreifðist markaskorunin mikið þar fór þó fremst í flokki Ásdís Guðmundsdóttir sem var afar öflug á línunni.
Mörk KA/Þór: Ásdís Guðmundsdóttir 6, Ásdís Sigurðardóttir 4, Steinunn Guðjónsdóttir 4, Martha Hermannsdóttir 3, Aldís Ásta Heimisdóttir 2, Auður Brynja Sölvadóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Katrín Vilhjálmsdóttir 1, Kolbrún María Bragadóttir 1 og Þóra Björk Stefánsdóttir 1 mark.
Sunna Guðrún Pétursdóttir og Margrét Einarsdóttir stóðu í markinu og áttu báðar frábæran leik.
Mörk Aftureldingar: Hekla Rún Ámundadóttir 4, Íris Kristín Smith 3, Rakel Dóra Sigurðardóttir 2, Sara Lind Stefánsdóttir 2, Telma Rut Frímannsdóttir 2 og Þóra María Sigurjónsdóttir 2 mörk.
KA/Þór hefur leikið fimm leiki í deildinni og hafa sigrað þá alla, fullt hús og 10 stig en HK er þó á toppi deildarinnar með 11 stig eftir sex leiki. Föstudaginn 10. nóvember eiga stelpurnar heimaleik í bikarkeppninni þegar þær taka á móti FH. Næsti leikur KA/Þór í deildinni er útileikur gegn Víkingi þann 18. nóvember.
Þórir Tryggvason var mættur með myndavélina og sendi okkur myndir sem er hægt að skoða með því að smella hér.
Leikurinn var í beinni útsendingu á KA-TV og hægt að horfa á leikinn í spilaranum hér að neðan: