Risaleikur gegn Val á laugardaginn o.fl.

Það er óhætt að segja að Akureyri eigi risaheimaleik í Olís deild karla klukkan 17:00 á laugardaginn þegar nýkrýndir bikarmeistarar Vals mæta til leiks. Akureyri þarf nauðsynlega á stigunum að halda í harði baráttu á botni deildarinnar og næsta víst er að Valsmenn munu ekkert gefa eftir en þeir eru að berjast um að enda í einu af fjórum efstu sætum deildarinnar.

Akureyri tapaði með einu marki í vægast sagt dramatískum útileik gegn FH í síðustu umferð en vann góðan sigur á Aftureldingu nokkrum dögum áður. Valur tapaði tveim síðustu leikjum sínum í Olís deildinni, báðum á heimavelli, síðast gegn Stjörnunni og þar áður fyrir FH.

Akureyri og Valur mættust í KA heimilinu þann 2. febrúar og var sá leikur fjörugur. Akureyri leiddi með einu marki í hálfleik, 13-12 en vann að lokum sannfærandi sigur 27-21. Ekki er að efa að heimamenn hafa hug á að endurtaka þann leik og er óskað eftir öflugum stuðningi áhorfenda í þeirri baráttu.

Leikurinn verður í beinni útsendingu á Akureyri-TV, SMELLTU HÉR TIL AÐ FYLGJAST MEÐ ÚTSENDINGUNNI.

Mikið um að vera í handboltanum um helgina.
Leikur Akureyrar og Vals í Olís deildinni er aldeilis ekki eini handboltaviðburður helgarinnar hjá Akureyrsku handboltafólki.

1. deild karla
Akureyri U sækir ÍR heim á föstudag
Ungmennalið Akureyrar á eftir að leika fjóra leiki í 1. deild karla, tvo útileiki og tvo heimaleiki. Á föstudagskvöldið halda strákarnir suður og mæta þar ÍR sem situr sem stendur í öðru sæti deildarinnar. Eins og staðan ber með sér þá er ÍR eitt af öflugustu liðum deildarinnar og því er verkefni Ungmennaliðsins ekki einfalt.

Nokkrar tengingar eru á milli ÍR liðsins og Akureyrarliðsins. Þjálfari ÍR er Bjarni Fritzson sem lék með Akureyrarliðinu fjögur tímabil, þar á meðal sem þjálfari. Þá eru Halldór Logi Árnason og Valþór Atli Guðrúnarson, fyrrum leikmenn Akureyrar í hópi atkvæðamestu leikmanna ÍR.
Leikurinn fer fram í Austurbergi og hefst klukkan 19:30 og tilvalið fyrir stuðningsmenn á höfuðborgarsvæðinu að byrja föstudagskvöldið með því að mæta á leikinn.

Hamrarnir með heimaleik gegn KR á föstudag
Á svipuðum tíma taka Hamrarnir á móti KR í KA heimilinu en sá leikur hefst klukkan 20:15 á föstudagskvöldið.
Þá er rétt að minna á að laugardaginn 18. mars er komið að stórleik Akureyrar U og Hamranna þar sem án efa verður allt lagt í sölurnar. Nánar um þann leik síðar.

1. deild kvenna
KA/Þór með heimaleik gegn Val U á laugardaginn
Það er óhætt að segja að það sé handboltaveisla hjá Akureyringum á laugardaginn. Stórleikir bæði í 1. deild kvenna og í kjölfarið hörkuleikur í Olís deild karla.  Í 1. deild kvenna tekur KA/Þór á móti Val U og óhætt að segja að leikurinn sé mikilvægur. KA/Þór er í efsta sæti deildarinnar stigi meira en Fjölnir og HK þannig að stelpurnar mega ekki gera nein mistök þó svo að Valur U sitji í neðsta sæti deildarinnar án stiga.

Leikurinn hefst í KA heimilinu klukkan 14:45 og það er frítt inn á leikinn.  Strax á eftir byrja síðan karlalið Akureyrar og Vals að hita upp fyrir sinn leik sem hefst klukkan 17:00 eins og áður segir.

Við vonumst til að sjá þig á Vals-leiknum á laugardaginn og óskum öllum Akureyrarliðunum velgengni um helgina
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.