Það er enginn smá leikur sem fer fram í KA-Heimilinu í dag klukkan 18:00 þegar KA tekur á móti Fram í Olís deild karla í handboltanum. Bæði lið eru að berjast fyrir áframhaldandi veru í deild þeirra bestu en Framarar sitja í fallsæti með 7 stig á meðan KA er í 9. sætinu með 10 stig. Leikurinn er því algjört skólabókardæmi um fjögurra stiga leik.
Stemningin á leikjum KA í vetur hefur verið hreint út sagt ótrúleg en það er ljóst að við þurfum á ykkur öllum að halda í stúkunni í dag. Sigur kæmi KA liðinu 5 stigum frá fallsæti þegar 8 leikir yrðu eftir af deildinni sem yrði að teljast ansi gott enda liðinu spáð falli af flestum sérfræðingum fyrir veturinn.
Fyrri leikur liðanna sem fram fór í Safamýri var jafn og spennandi og var jafnt 12-12 í leikhléi. Þegar um 10 mínútur lifðu leiks leiddi KA liðið 18-19 eftir að hafa skorað fimm mörk í röð en endakaflinn var Framara sem unnu að lokum 26-21.
Strákarnir eru staðráðnir í því að halda KA í deild þeirra bestu og halda áfram að byggja upp handboltann í félaginu. Til að það gerist þurfum við á þér að halda í dag, endilega takið einhvern með ykkur á leikinn og styðjum okkar lið.
Lemon samlokur sem og Greifapizzur verða til sölu í kringum leikinn þannig að enginn ætti að svelta þó leikurinn sé í kringum matmálstíma. Fyrir ykkur sem komist hinsvegar alls ekki í KA-Heimilið þá verður leikurinn í beinni á KA-TV og má nálgast útsendinguna hér fyrir neðan.