Það
má gera ráð fyrir hörkuleik á mánudagskvöldið þegar Akureyri tekur á móti FH í fyrsta leik N1 deildar karla þetta
tímabilið. Undanfarin ár hafa þessi lið trúlega mæst oftast af öllum liðum deildarinnar og undantekningarlítið hafa leikir þeirra
verið jafnir og spennandi.
Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópi beggja liða frá því í fyrra. Hjá Akureyri eru þær helstar að Sveinbjörn
Pétursson, markvörður er farinn til EHV Aue í Þýskalandi, og Hörður Fannar Sigþórsson leikur nú með Kyndil í Færeyjum
auk þess sem Guðlaugur Arnarsson lagði skóna á hilluna. Aðrir leikmenn sem fóru eru Daníel Örn Einarsson sem fór til HK, Jón
Heiðar Sigurðsson til Gróttu, Halldór Tryggvason til FH og Hlynur Elmar Matthíasson til Víkings.
Akureyri hefur hins vegar fengið tvo markverði, Jovan Kukobat frá Serbíu og Tomas Olason sem kemur frá Danmörku. Auk þess hefur liðið endurheimt Andra Snæ Stefánsson og Hrein Hauksson sem báðir komu reyndar lítillega við sögu síðasta vetur. Þar fyrir utan eru nokkrir gríðarlega öflugir strákar úr Íslandsmeistaraliði 2. flokks sem munu berjast um sæti í liðinu.
Frá leikmannakynningu Akureyrar síðastliðinn mánudag
Í viðtali við Vikudag segir Heimir Örn Árnason, annar þjálfari Akureyrar að veturinn leggist vel í sig. „Það er alltaf sett
stefnan á að vinna þá titla sem í boði eru, annars væri maður ekkert í þessu“, segir Heimir sem segist mjög sáttur við
leikmannahópinn og að liðið sé klárt í slaginn.
Það er nokkuð ljóst að N1 deildin verður óvenju jöfn í vetur og því verður hver leikur geysilega mikilvægur. FH liðið er
öflugt, því er spáð 2. sæti í deildinni þannig að nú dugar ekkert annað en að byrja af fullum krafti, jafnt leikmenn sem
stuðningsmenn.
Það má búast við miklu fjölmenni í Höllinni og því hvetjum við áhorfendur til að mæta tímanlega og rétt
að benda á að miðasalan gengur mun hraðar ef greitt er með peningum en að sjálfsögðu er einnig tekið á móti
greiðslukortum.
Akureyri Handboltafélag opnar facebook síðu
Fyrir örfáum dögum var opnuð opinber facebook síða fyrir Akureyri Handboltafélag. Við hvetjum alla sem eru meðlimir á facebook að like-a
síðuna og endilega dreifa henni áfram svo sem flestir verði varir við hana.
Facebook síðan er opin öllum og er aðallega hugsuð til að minna Facebook notendur á komandi leiki og aðrar uppákomur tengdar félaginu.
Slóðin á síðuna er eftirfarandi: http://facebook.com/akureyrihand
Með von um skemmtilegt handboltatímabil,
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.