Grátlegt tap í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.
Eldra ár 4. flokks kvenna spilaði sinn síðasta leik á Íslandsmótinu um helgina gegn HK í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.
Leikurinn var í járnum allan leikinn en á endanum reyndust HK stelpur sterkari og lönduðu sigri.
Varnarleikur norðanstúlkna var frábær í leiknum og Arnrún sjóðandi heit fyrir aftan sterka vörn. Hausverkur leiksins var hins vegar hinum megin á vellinum og í keyrslu upp völlinn. Allt of margir glataðir boltar og rangar ákvarðanir í sókninni töpuðu þessum leik. Það vantaði ekkert upp á baráttuna eða viljann hjá stelpunum. Það verður aldrei af þeim tekið.
Hins vegar virðist sem spennan hafi borið þær ofurliði sóknarlega og því fór sem fór.
Þrátt fyrir að sóknin hafi aldrei náð sér til flugs voru stelpurnar alltaf inn í leiknum og hefðu með örlítilli heppni getað tryggt sér sigur en það féll ekki með þeim í þessum leik. HK fékk augnablikið með sér síðustu mínúturnar og það er það sem telur.
Mörk KA/Þórs: Una Kara Vídalín 10, Aldís Ásta Heimisdóttir 2, Lísbet Gestsdóttir 2, Ólöf Hlynsdóttir 1.
Varin skot: Arnrún Eik Guðmundsdóttir 11.
Þrátt fyrir þetta tap geta stelpurnar borið höfuðið ákaflega hátt. Allan 4. flokkinn tapa stelpurnar samtals fimm leikjum í öllum keppnum. Einn leikur tapaðist með meira en tveimur mörkum. Í 4. flokki hafa þær orðið deildar- og bikarmeistarar, fallið út í undanúrslitum Íslandsmeistara, tapað í bikar og Íslandsmeistara úrslitaleik. Árangur sem margir hefðu óskað eftir. Þær hafa gert harða atlögu að öllum titlum og unnið tvo þeirra.
Af þeim 14 sem voru á leikskrá í þessum úrslitaleik eru allavegana 8-10 sem eru nú þegar orðnar mjög góðar og hinar eiga eftir að blómstra þegar fram líða stundir. Því ekki vantar hæfileikana í þennan hóp, sumar þurfa bara að æfa lengur þar sem ekki er hægt að ákveða við 16 ára aldur hvort maður nái árangri í íþróttinni eða ekki. Sú ákvörðun á að koma síðar.
Ef landsliðsbatterýið væri ekki svona meingallað að oddatölubörn eru alltaf á yngra ári væru í það minnsta fjórar til fimm þeirra með fast sæti í landsliðinu og aðrar að banka harkalega á dyrnar. Þetta er magnað lið sem, ef rétt er haldið á spöðunum í framtíðinni, á eftir að ná langt og styrkja meistaraflokk gríðarlega. Það er að segja ef þær æfa vel og helga sig íþróttinni.
Til að ná langt þarf að byrja á að láta sig dreyma um það. Til að ná langt þarf að færa fórnir og halda ótrauður áfram þrátt fyrir að fá harkalegt högg í andlitið eins og þær fengu á föstudaginn. Ég persónulega treysti þessum hóp fullkomlega til að koma enn sterkari til leiks á næstu árum. Til að setja kassann út, fá smá hroka í sig og halda áfram að gera harða atlögu að þeim titlum sem þeim stendur til boða í framtíðinni.