Það kom fljótlega í ljós að krakkarnir voru búin að fá nóg af verslunarferðum og labbi því að allir voru komnir aftur
upp í skóla kl. 16:00. Þá fóru reyndar nokkrir í Scandinavium höllina og fylgdust með úrslitaleikjunum. Eftir kvöldmat, sem var
kjúklingur enn einu sinni, var eiginlega bara beðið eftir rútunni sem átti að sækja okkur kl. 23:30. Tveir fararstjórar, ásamt börnunum
sínum höfðu yfirgefið okkur fyrr um daginn en þau ætluðu að halda áfram að ferðast um Skandinavíu, það hafði
því fækkað í hópnum. Eftir næturflugið, þar sem flestir gátu sofið eitthvað, fækkaði enn í hópnum þar
sem ein stúlkan var tékkuð beint inn í flug til Noregs og einn drengur var sóttur til Keflavíkur. Í Reykjavík fækkaði svo um
fjóra í viðbót en þeir voru sóttir af fjölskyldum sínum sem þar voru stödd. Það var því frekar fámennur og
þreyttur hópur sem steig upp í rútuna í Keflavík. Ferðin heim gekk vel enda sváfu flestir. Til Akureyrar komum við um kl. 09:30 og
þessari stórskemmtilegu ferð lokið.
Krakkarnir okkar í KA og KA/Þór voru alveg frábær í þessari ferð. Það skein gleði úr hverju andliti og greinilegt að allir
voru komnir til þess að skemmta sér vel og njóta þessara daga. Reynslan sem krakkarnir fengu úr þessari ferð var líka mikil handboltalega.
Þarna spiluðum við á móti liðum frá mörgum löndum Evrópu auk þess sem stelpurnar spiluðu við lið frá Egyptalandi.
Þá sáu krakkarnir stórskemmtilegt landslið Nígeríu í 15 ára flokki drengja sem spilaði vörnina sína út um allan
völl, allan leikinn. Þetta afbrigði af varnarleik höfðu margir aldrei séð. Þeir voru eldsnöggir, stálu boltanum hvað eftir annað og
skoruðu úr hraðaupphlaupum. Við sáum þá t.d. slátra Fram með 15 marka mun og vorum í raun dauðfegnir að lenda ekki á
móti þeim.
KA fer alltaf annað hvert ár á þetta mót og árgangar 1998 og 1999 geta strax farið að láta sig hlakka til næstu ferðar.
Að lokum viljum við þakka öllum þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem styrktu hópinn til fararinnar, bæði með kaupum á varningi og beinum
styrkjum.
Við látum nokkrar myndir fylgja með en ætlunin er að boða til myndakvölds og pizzuveislu fyrir keppendur og foreldra þeirra. Það verður
væntanlega seinni part ágúst þegar fólk verður komið úr sumarfríum.
Það getur greinilega rignt duglega í Svíþjóð :)
Smelltu hér til að skoða allar myndirnar úr ferðinni.
Fararstjórar og þjálfarar