Partille Cup, símanúmer og fréttir

Byrjum á því mikilvæga, símanúmer fólksins sem stjórnar. 

Sigga: 0046700236189
Fúsi: 0046737330481
Systa: 0046737330203
Kara: 0046700236192
Stefán: 0046737330188

Eitthvað vesen var á þessu landsnúmeri síðast, Sigfús tæknitröll hefur náð að kippa því í liðinn og því ættu númerin að vera nokkuð akkúrat hér eftir. 
Það er líka gott að benda foreldrum á að ekki er hægt að hringja í sænsku númerin nema að inn á þeim sé inneign, því miður hefur inneignin klárast hjá sumum aðilum þar sem kostnaðurinn við að hringja stutt símtal heim er mikill. Það er því lang farsælast að foreldrar vinni sig bara í gegnum listann þar til að þeir hitta á þann fararstjóra sem stendur barninu næst. 

Systa og Kara eru mest megnis með stelpunum á meðan Fúsi og Sigga hanga með stráknum. Stebbi flakkar síðan þarna á milli.

Partillepartille. 

Fyrsti keppnisdagurinn var í dag og gekk liðunum svona upp og ofan. Strákarnir í KA1 Spiluðu fyrsta leikinn klukkan 08:30 í morgun og töpuðu honum nokkuð sannfærandi. Eitthvað voru aðstæður að þvælast fyrir þeim en eftir 15. klúðraða dauðafærið var ákveðið að öllum væri fyrir bestu að hætt væri að telja. Þeir tóku sig þó saman í andlitinu og unnu hörku spennandi leik seinna um daginn og koma því ágætlega út úr fyrsta degi. 

KA2 spilaði gegn nokkuð sterku sænsku liði í byrjun og voru sáraóheppnir að leikurinn endaði í jafntefli. Spiluðu fanta vel og áttu meira skilið. Síðar um daginn spiluðu þeir gegn liði frá Egyptalandi þar sem fleira en bara andlitið á þeim var kafloðið. Ef 16 ára drengir eru komnir með alskegg og hrukkur í Egyptalandi þá erum við í KA tilbúnir að samþykkja aldur þeirra. Strákarnir stóðu sig samt ótrúlega vel en það dugði því miður ekki til og því endaði leikurinn með þriggja marka sigri 16 ára liðs Egypta. 

15 ára liðið spilaði í Guldheden sem er völlur í miðri eyðimörk Gautaborgar. Þar voru þeir undir sterkri leiðsögn Sigfúsar Karlssonar sem stóð sig með stakri prýði við kröpp kjör. Strákarnir voru sáraóheppnir að tapa fyrsta leiknum og voru víst rændir sigri í lok leiks svo niðurstaðan var jafntefli í fjörugum leik þar sem tveir KA strákar fengu að horfa framan í rauða spjaldið fagra. 

Það skal þó tekið fram að í KA1 og 15 ára liðinu eru leikmenn sem spila með báðum liðum og í dag hitti það þannig á að leikirnir fóru ofan í hvorn annan þannig að skipta þurfti þeim á liðin. Á morgun geta bæði lið því stillt upp sínu sterkasta liði og verður gaman að sjá hvernig það mun ganga. 

Stelpurnar spiluðu gegn sterku spænsku liði og máttu þola sannfærandi tap. Það skal þó sagt þeim til hrós að þær spiluðu mjög vel framan af og stóðu vel í þeim. Markvarslan og vörn nokkuð góð ásamt ágætis tilburðum í sókninni. Þegar líða tók á leikinn dró af liðinu og munurinn jókst. 

Mótið er þó langt frá því að vera búið og fullt af leikjum eftir. 

Þar til næst, fararstjórar og þjálfarar.