Í dag var fyrsti keppnisdagur á Partille Cup. Öll liðin okkar spiluðu leiki í dag og gekk mjög vel.
Eftir nokkra skýjaða daga hér í Gautaborg skein sólin glatt í dag. Við tókum daginn snemma enda fyrsti leikur kl. 9:40. Við erum með þrjú lið á þessu móti, 15 ára drengir, 16 ára drengir og 16 ára stúlkur. Lið 15 ára stráka spilaði tvo leiki í dag gegn sænskum liðum. Fyrst unnu þeir sterkt lið Savehof 12-10 en töpuðu svo gegn HK Ankeret 12-15. Eldra lið stráka spilaði einn leik og vann norska liðið Son HK örugglega 23-7. Stelpurnar okkar spiluðu tvo leiki. Þær gerðu fyrst jafntefli við Karra HF en þær sænsku skoruðu jöfnunarmarkið á síðustu sekúndunni. Í seinni leik dagsins töpuðu stelpurnar okkar naumlega gegn norska liðinu Sarpsborg IL 11-13. Þar þótti stelpunum dómararnir heldur smámunasamir, eða þeir kunnu ekki að meta Íslensku hörkuna. Stelpurnar voru því mikið útaf í leiknum og til að mynda fékk Arna Kristín þrisvar sinnum tvær mínútur og þar með rautt spjald. Það var á þessum köflum sem norska liðið skoraði á okkar lið og tap því staðreynd.
Í kvöld var svo opinber opnunarhátíð mótsins, í Scandinavium höllinni. Þar voru yfir 20000 manns og boðið upp á frábæra sýningu. Mikla athygli vakti þegar allir voru drifnir í Zumba dans og þar fóru fararstjórarnir okkar á kostum (þó við segjum sjálf frá).
Á morgun er keppnisdagur tvö og svipað margir leikir og í dag. Dagurinn verður tekinn snemma þrátt fyrir leiki hjá öllum seinnipart dags. Það þarf eitthvað að skoða verslanirnar meira.
Stemmningin í hópnum er frábær, allir krakkarnir jákvæðir og skemmta sér konunglega. Allir eru að eignast nýja vini frá öllum þeim 41 þjóð og 1.100 liðum sem eru að spila hérna á þessu móti.
Að lokum þá erum við komin loksins með sænsk númer eftir stranga leit og erum við með þrjú númer, hvert lið með eitt númer.
Eldra lið drengja ásamt Jóa og Ingu eru með símanúmerið: 727824807
Yngra lið drengja ásamt Sævari: 727824808
Stúlknaliðið ásamt Halldóri, Sigrúnu og Kristni: 764441170
Hópurinn við brottförina frá KA heimilinu. Mynd: Þórir Tryggvason