Partille Cup „Mér finnst hvortið er lúða góð

Síðustu dagar hafa svo sannarlega verið kaflaskiptir. Á fimmtudaginn rigndi eins og enginn væri morgundagurinn og úr varð einhverskonar vatnabolti á gríðarlega hálum gervigrasvelli. Dramatískir sigrar í takt við ekki svo dramatísk töp áttu sér stað á rigningardeginum mikla og óhætt að segja að sú upplifun sem krakkarnir fengu þennan dag mun lifa með þeim eitthvað inn í lífið.

Daginn eftir stytti upp og sólin sýndi sína skærustu geisla. Úr varð fjöldabruni á þjálfurum, leikmönnum og fararstjórum. Til allrar lukku var Sigga fararstjóri við öllu búin og dró upp þetta líka fína aloe vera gel sem sumir þjálfarar nýttu sér óspart í þeirri veiku von að húðin héldist á. 

Leikirnir þann daginn spiluðust ekki á þá leið sem við hefðum viljað en 15 ára liðið vann þó góðan sigur á meðan öðrum liðum gekk brösulega. Þó var öllu furðulegri leikurinn hjá A liðinu gegn grísku liði þar sem KA strákar réðu lögum og lofum á vellinum í fyrri hálfleik. Þá brá gríska liðið á það ráð að setja þann mann sem talinn var vera þjálfari liðsins í markið og hann gerði sér lítið fyrir og varði 15 skot í síðari hálfleik. Leikurinn endaði því með grátlegu tapi KA drengja. 

Þrátt fyrir það komst A liðið inn í A úrslitin en hin KA liðin fóru í B úrslitin. 

Úrslitakeppnin hófst í dag og var spiluð í steikjandi hita. Stelpurnar hófu leik snemma í morgun og spiluðu gegn spræku liði frá Svíþjóð. Stelpurnar hafa sýnt það í keppninni að þær kunna alveg að berajst og þegar þær gera það er voðinn vís. Til að mynda gerðu þær húsmæður í pólsku liði algjörlega bandbrjálaðar sem endaði nánast í slagsmálum inn á vellinum. Líkaði þeim illa sú norðlenska harka sem þær lentu í. Auk þess sem þær spiluðu líklegast sinn besta leik þetta árið gegn dönsku liði sem þær gjörsigruðu í riðlakeppninni. Leikurinn gegn sænska liðinu var ágætur að mestu leiti en það vantaði herslu muninn fyrir stelpurnar að klára leikinn. Því duttu þær út í morgun en meiga þrátt fyrir það vera nokkuð ánægðar með þetta mót. Þrátt fyrir að einungis þrjár stelpur eru fæddar 94 var liðið skráð í 94 keppnina og voru stelpurnar sífellt að keppa við sér eldri leikmenn og létu þær svo sannarlega hafa fyrir því sem þær voru að gera. 

A liðið spilaði í morgun gegn dönsku liði í 64 liða úrslitum og eftir vægast sagt furðulegan leik stóðu KA strákar uppi sem sigurvegarar. Það þýddi að þeir fóru áfram í 32 liða úrslitin þar sem þeir mættu sænsku akademíu liði sem á hafði að skipa gríðarlega sterkum, stórum og snöggum leikmönnum. Útlitið var ekki bjart eftir 5 mínútur en þá höfsðu Svíarnir fimm marka forustu og KA strákar virtust hálf ráðalausir. Með mikilli seiglu og baráttu náðu KA menn að jafna og fengu tvö tækifæri til að komast yfir en því miður höfnuðu bæði skotin í stönginni. Fljótlega missa KA menn tvo menn út af með tvær mínútur og sænsku drengirnir gerðu út um leikinn. Strákarnir spiluðu sína bestu leiki í vetur á mótinu og hefðu hæglega getað farið lengra ef ýmsir hlutir hefðu legið betur með þeim. 
Baráttan og stemmingin var til fyrirmyndar og strákarnir meiga svo sannarlega vera stoltir af því hvernig þeir spiluðu í þessu móti. 
Strákarnir í B2 hafa verið að spila ágætlega á mótinu. Það ber þó að nefna það að fjórir leikmenn í því liði spila einnig með 15 ára liðinu og því hefur keyrslan verið mikil á þeim drengjum. Heilt yfir geta strákarnir verið mjög sáttir við mótið. Menn í liðinu hafa svo sannarlega verið að leggja sig fram og eiga heiður skilinn. Þeir hafa gert sitt besta og það er erfitt að biðja um meira en það. Í 64 liða úrslitum lentu strákarnir gegn gríðarlega sterku liði og áttu þeir því miður litla möguleika gegn þeim. Þeir börðust samt eins og ljón í leiknum og geta borið höfuðið hátt eftir mótið. 

15 ára liðið hóf leik í hádeginu gegn sænsku liði, eða í raun hófu þeir ekki leik gegn því liði fyrr en 8 mínútur voru búnar af leiknum. Þegar þeir loksins byrjuðu leikinn völtuðu þeir yfir mótherja sína, unnu upp forskotið og lönduðu góðum sigri. 
Seinni leikurinn var síðan um kvöldið gegn norsku snillingunum í Hasslum. Þar átti KA klárlega góðan möguleika á sigri en þreytan var farin að gera vart við sig og illa gekk að ná upp þeirri baráttu sem hafði fleytt liðinu alla þessa leið. Strákarnir töpuðu þeim leik en hefðu hæglega getað unnið leikinn með smá heppni. 

Liðin hafa öll átt það sameiginlegt að heilt yfir hafa þau verið að spila vel. Baráttan mikil og leikgleðin allsráðandi. 

En Partille Cup er ekki bara handbolti. Krakkarnir hafa farið á leikmannaball, farið í bíó, farið í verslunarleiðangra og flökkuferðir um Gautaborg. Reyndar eru þessar flökkuferðir í flestum tilfellum út af kæruleysi þegar kemur að þvi að velja hvaða sporvagn á að taka en það er önnur saga. 

Á morgun er síðan stefnt á að fara með krakkana á ströndina um morguninn og eftir hádegi er förinni síðan heitið í Liseberg tívolíið og þar hefur einn þjálfari sett sér það takmark að vinna stóra Toblerone-ið!

Það má síðan til gamans geta fyrir áhyggjufull foreldri að leikmenn KA í karla og kvenna flokki eru greinilega virkilega vel upp alin þar sem húsverðir skólans þar sem við gistum nýta hvert tækifæri til að hrósa þeim. 

Kv. Fararstjórar og þjálfarar