Partille Cup, kveðja frá þjálfurum og fararstjórum

Nú þegar hópurinn hefur vonandi allur skilað sér heim og engin stórslys orðið á fólki er vert að þakka öllum þeim sem komu að þessari ferð kærlega fyrir. 
Krakkarnir voru félagi sínu og foreldrum til sóma innan vallar sem utan og aginn sem þau búa yfir á eftir að reynast þeim vel í framtíðinni.

Fyrir utan handboltann var mikil dagskrá alla dagana og var meðal annars farið í verslunarferðir, vatnsleikjagarð, tívolí og á litla strönd. Á ströndinni var 10 metra hár stökkpallur sem sumir létu sig vaða fram af. Aðrir létu sér nægja að fylgjast með úr góðri fjarlægð. Sumar hetjur drifu sig samt upp en tóku sér góðan klukkutíma í að ákveða hvort að sniðugt væri að láta sig vaða! 

Tveir einstaklingar fóru á flakk um Gautaborg fyrsta daginn eftir að hafa tekið vitlausan sporvagn, skiluðu sér þó heim um síðir. Öllu meira vesen var þó á fararstjórunum. Einn fararstjórinn neitaði að koma úr verslunarleiðangri og var talað um að Espirit verslunin í Nordstar hafi verið skilin eftir nánast tóm. Annar fararstjóri var á sífelldu flakki um Gautaborg, hvort sem það var að lauma sér inn í vitlausan morgunverðarsal 25 mínútum í burtu frá okkar skóla (þar sem okkar morgunverður var) eða taka vitlausan sporvagn og þvælast um Gautaborg í nokkra tíma án þess að hafa hugmynd um hvar í Gautaborg hún var. 
Hugsanlega var þó besta atvikið varðandi fararstjórana þegar ákveðið var að fara frekar fínt út að borða á meðan krakkarnir skökuðu sér á leikmanna ballinu. 

Fyrir valinu varð glæsilegur ítalskur veitingastaður og vildi svo til að matseðillinn var fyrst og fremst á ítölsku og sænsku. Glæsilegur fararstjóri ferðarinnar ákvað að slá um sig á ítölsku og pantaði sér humar, enda gat hann fengið piparsteik heima hjá sér. Humar skildi það vera. 
Þegar maturinn fór að berast á borðið fengu allir það sem þeir höfðu pantað sér, nema sá sem hafði talað um hvað hann elskaði humar í hálftíma og hlakkaði til að borða þetta sjávarhnoss. Hann fékk eitthvað allt annað. Hneykslaður kallaði hann á þjónustustúlkuna og benti henni á að þarna hefðu orðið mistök. Hún þvertók fyrir það og heimtaði fararstjórinn síkáti að fá að sjá matseðilinn. Kom það upp úr krafsinu að hann hafði víst ruglast í tungumálakunnáttu sinni og pantað sér slepjulega lúðu. Hálf svekktur muldraði hann út um munnvikið að honum þætti lúða hvortið er góð en horfði löngunaraugum á humarpastað hjá sessunaut sínum. 

Það að örlitlir tungumálaörðuleikar og pínu lítill ruglingur á áttum og sporvögnum reyndist vera stærstu vandamál ferðarinnar er sönnun þess hversu frábær hópur þetta var. 
Hegðunin sem slík var til stakrar fyrirmyndar og eins og áður sagði voru krakkarnir sér, foreldrum sínum og félaginu til mikils sóma. 

Nú er komið sumarfrí frá handboltanum en það varir þó ekki lengi þar sem eldri flokkarnir hefja sínar æfingar eftir tæpan mánuð. 

Við þjálfararnir og fararstjórarnir þökkum kærlega fyrir vel heppnaða ferð og vonum að allir hafi skemmt sér konunglega þessa átta daga. 
All nokkrar myndir voru teknar af fararstjórum í þessari ferð og vonandi skila þær myndir sér hingað inn á allra næstu dögum. 

Kv. þjálfarar og fararstjórar