Eins og undanfarin ár hefjum við forleik að handboltavertíðinni með
æfingamótinu Opna Norðlenska. Að þessu sinni taka fjögur lið þátt í mótinu, þrjú gestalið, Fram, Stjarnan
og Valur auk heimamanna.
Það verður virkilega forvitnilegt að sjá hvernig nýir leikmenn Akureyrar spjara sig en fimm nýir leikmenn komu til liðs við Akureyri
Handboltafélag í sumar:
Halldór Logi Árnason sem snýr aftur heim eftir tveggja ára veru með bikarmeisturum ÍR. Halldór Logi er 24 ára línumaður.
Þrándur Gíslason kemur frá Aftureldingu en hann var fyrirliði liðsins síðasta tímabil. Þrándur er 25 ára línumaður, gallharður varnarjaxl og mikil stemming í kringum hann á vellinum.
Gunnar Kristinn Þórsson Malmquist hornamaður úr Val. Gunnar er 18 ára og gríðarlega efnilegur leikmaður og er t.d. í U-21 árs landsliði Íslands. Gunnar sem er mikill keppnismaður á ættir að rekja til Akureyrar og lék með yngri flokkum Þór á árum áður.
Kristján Orri Jóhannsson er hægri hornamaður sem kemur frá Gróttu. Kristján Orri var markahæsti maður Gróttuliðsins í 1. deildinni í fyrra og er sömuleiðis í U-21 árs landsliði Íslands. Kristján verður 20 ára á árinu.
Vladimir Zejak kemur frá Rk Crvenka í Serbíu, hann er öflug skytta og sterkur varnarmaður. Valdimir er rétt að verða 27 ára og hefur
verið markahæstur serbneska liðsins undanfarin ár.
Gestaliðin eru ekki síður forvitnileg. Nýr þjálfari Vals, Ólafur Stefánsson mætir með góðkunningja okkar, frændurna
Guðmund Hólmar Helgason og Geir Guðmundsson.
Þeir frændur hafa verið mjög atkvæðamiklir hjá Valsmönnum í leikjum á undirbúningstímabilinu.
Þá þekkjum við vel til nýráðins þjálfara Fram liðsins en það er enginn annar en Guðlaugur Arnarson, fyrrum leikmaður
Akureyrar. Í leikmannahópnum eru a.m.k. tveir fyrrum leikmenn Akureyrar, Ólafur Magnússon og Hákon Stefánsson.
Þriðja gestaliðið er Stjarnan sem gerði okkur
lífið leitt í bikarkeppninni síðastliðinn vetur. Þess má geta að stórskyttan Einar Hólmgeirsson er genginn til liðs við
Stjörnuna og ekki ósennilegt að nokkrar bombur frá honum eigi eftir að gleðja Stjörnumenn í vetur.
Fyrirkomulag mótsins er þannig að allir leika við alla þannig að í boði verða sex hörkuleikir. Hægt verður að kaupa
aðgöngumiða að upphæð 1.500 krónur fyrir fullorðna og gildir miðinn á alla leiki mótsins.
Leikjaniðurröðunin er sem hér segir:
Föstudagurinn 6. september
Kl. 19:00 Akureyri - Fram
Kl. 20:30 Stjarnan – Valur
Laugadagurinn 7. september
Kl. 10:00 Stjarnan - Akureyri
Kl. 11:30 Valur - Fram
Kl. 13:30 Fram - Stjarnan
Kl. 15:00 Akureyri – Valur
Í mótslok verða veitt verðlaun fyrir sigurliðið og til viðbótar verða fern einstaklingsverðlaun, besti leikmaður mótsins, besti
markvörðurinn, besti sóknarmaðurinn og besti varnarmaðurinn.