Nicolai Kristensen og Ott Varik í KA

Handbolti
Nicolai Kristensen og Ott Varik í KA
Velkomnir í KA!

Handknattleiksdeild KA barst í dag ansi góður liðsstyrkur fyrir komandi tímabil þegar þeir Nicolai Horntvedt Kristensen og Ott Varik skrifuðu undir samning við félagið.

Ott Varik er 33 ára gamall landsliðsmaður frá Eistlandi sem leikur í hægra horni en hann gengur í raðir KA frá liði Viljandi HC í Eistlandi þar sem hann hefur leikið undanfarin tvö tímabil. Þar áður lék hann með finnska liðinu SIF. Þess má til gamans geta að Ott skoraði alls fimm mörk gegn íslenska landsliðinu í undankeppni EM sem fór fram í byrjun árs.

Nicolai Horntvedt Kristensen er tvítugur markvörður frá Noregi sem gengur í raðir KA frá liði Nøtterøy en Nicolai hefur verið fastamaður í yngrilandsliðum Noregs.

Allan Norðberg og Nicholas Satchwell hafa báðir yfirgefið herbúðir KA og því ljóst að þeirra skarð þurfti að fylla og afar jákvætt að það sé strax klárt með innkomu þeirra Nicolai og Ott. Bjóðum þá innilega velkomna í KA og hlökkum til að sjá þá í gula og bláa búningnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is