N1 deild kvenna: KA/Þór gegn stórliði Fram á laugardaginn

Það verður enginn smáleikur í KA heimilinu á laugardaginn þegar KA/Þór tekur á móti Fram sem er í 1.-2. sæti deildarinnar. Eftir tvo sigurleiki í röð fá stelpurnar svo sannarlega tækifæri til að setja strik í reikninginn hjá stórliðinu.
Leikurinn er klukkan 16:00 á laugardaginn og það er frítt inn, komið og sjáið alvöru handbolta.
Sömu lið mætast í 3. flokki klukkan 13:30 á laugardaginn og þar verður ekki síður harður slagur, liðin eru í 2. og 3. sæti deildarinnar.


Viðtal við Fridu Petersen í Vikudegi

Fyrir stuttu birtist viðtal við Fridu Petersen, færeyska markvörðurinn í liði KA/Þórs, sem hefur vakið mikla athygli með liðinu í vetur í N1-deild kvenna í handknattleik. Hún hefur átt hvern stórleikinn á eftir öðrum og oft á tíðum haldið liðinu á floti á slæmum köflum með góðri markvörslu. Frida varði sautján skot, þar af eitt víti, í sigri KA/Þórs gegn HK í síðasta leik á heimavelli og var besti maður vallarins.

„Ég er nokkuð sátt með mína frammistöðu í vetur. Það er oft erfitt að spila fyrir lið sem þú þekkir ekki mikið en mér finnst ég hafa fallið vel inn í hópinn. Það er hugsað vel um mig og mér líkar mjög vel hérna,“ segir Frida. Hún segir kvennahandboltann hér á landi skemmtilegan en átti hins vegar von á því að deildin væri sterkari. „Liðin sem eru við toppinn eru mjög sterk og vel spilandi en það er svakalegur getumunur á milli liða í deildinni. Gæðin eru ekki eins mikil hjá liðunum í neðri hlutanum og það má segja að deildin skiptist upp í þrjá hópa,“ segir hún.

Frida, sem er 28 ára, hefur spilað handbolta síðan hún var tólf ára og spilaði í Færeyjum áður en hún kom til Íslands síðastliðið sumar. Hún er samningsbundin hjá KA/Þór til 1. maí í vor og spáir lítið í framhaldið. „Það getur vel verið að ég verði áfram en ég er ekkert farin að hugsa um það. Ég einbeiti mér fyrst og fremst að því að spila vel fyrir KA/Þór og hjálpa liðinu að ná sínum markmiðum,“ segir hún.