Myndir frá háspennu jafntefli KA og Gróttu

Árni Bragi setti 9 mörk í gær (mynd: EBF)
Árni Bragi setti 9 mörk í gær (mynd: EBF)

KA tók á móti Gróttu í KA-Heimilinu í gær í 3. umferð Olís deildar karla í handbolta. Leikir beggja liða í upphafi tímabilsins hafa verið gríðarlega jafnir og spennandi og það varð heldur betur raunin í gær. Liðin skiptust á að leiða og fengu þeir sem voru svo heppnir að ná miða á leikinn svo sannarlega eitthvað fyrir peninginn.

KA tók frumkvæðið er tíu mínútur lifðu leiks en gestirnir gáfust ekki upp og þeim tókst að jafna metin á lokasekúndunni og háspennu 25-25 jafntefli því niðurstaðan. Gríðarlega svekkjandi að ná ekki að klára tvö stig en jafnteflið líklega sanngjarnt þegar litið er yfir leikinn í heild sinni.

Tímalína fyrri hálfleiks

Tímalína seinni hálfleiks

Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndari var á svæðinu og myndaði leikinn í bak og fyrir. Hann býður til myndaveislu og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Árni Bragi Eyjólfsson fór á kostum í liði KA en hann gerði alls 9 mörk í fjarveru Áka Egilsnes sem var settur í sóttkví þremur tímum fyrir leik og þurfti liðið því að bregðast fljótt við þeim tíðindum. Hornamennirnir þeir Allan Norðberg og Jóhann Geir Sævarsson gerðu báðir fjögur mörk og nýttu færin sín vel.

Þá kom hinn ungi Arnór Ísak Haddsson vel inn í sóknarleik liðsins, var hvergi banginn og lagði til tvö mörk rétt eins og Patrekur Stefánsson og Einar Birgir Stefánsson. Daði Jónsson og Jón Heiðar Sigurðsson skoruðu svo sitt markið hvor. Í rammanum varði Nicholas Satchwell 8 skot og Svavar Ingi Sigmundsson 2 skot.