Myndaveisla frá magnaðri endurkomu strákanna

Handbolti
Myndaveisla frá magnaðri endurkomu strákanna
Gríðarlega sterkt stig í hús! (mynd: EBF)

KA tók á móti Stjörnunni í fyrsta heimaleik liðsins í að verða mánuð í KA-Heimilinu í gær. Strákarnir höfðu staðið í ströngu í Austurríki í Evrópuverkefninu gegn liði HC Fivers og spurning hvort að það verkefni sem og ferðalagið hafi staðið aðeins í mönnum.

Gestirnir byrjuðu nefnilega leikinn mun betur og gerðu fjögur fyrstu mörkin. Stjörnumenn héldu áfram að bæta í og vantaði heldur betur neista í okkar lið. Ekki hjálpaði til að Arnór Freyr Stefánsson í marki gestanna átti frábæran leik framan af auk þess að KA tapaði boltanum sjö sinnum í fyrri hálfleik en Stjörnumenn aðeins einu sinni.

Jafnvægi komst í leikinn um miðbik fyrri hálfleiks og var staðan 8-14 þegar liðin gengu inn til búningsherbergja sinna. Staðan vissulega ekki góð og útlitið svart gegn sterku liði Stjörnumanna.

En við þekkjum það ansi vel að það er gífurlegur karakter í okkar liði og þá búa ótrúlegir töfrar í KA-Heimilinu. Þegar 20 mínútur lifðu leiks var munurinn áfram sex mörk en mest hafði hann farið í sjö mörk. Þá kviknaði heldur betur líf í strákunum og mögnuð stemning myndaðist á pöllunum.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Forskotið gufaði upp og skyndilega gífurleg spenna í leiknum og enn nægur tími til leiksloka. Loks tókst að jafna metin er rúmar fimm mínútur lifðu leiks í stöðunni 26-26. Í kjölfarið komst KA liðið yfir í 27-26 er þrjár og hálf mínúta var eftir. Smá klaufagangur gaf gestunum tækifæri á að endurheimta forystuna í 27-28 og aftur í 28-29.

Patrekur Stefánsson jafnaði metin á lokamínútunni í 29-29 og fengu Stjörnumenn tækifæri á að ná sigurmarkinu. Það gekk ekki og strákarnir brunuðu fram í sókn. Einar Rafn Eiðsson náði að skora stórkostlegt mark úr þröngri stöðu en lokaflautið gall á meðan boltinn var á leið í netið og taldi markið því ekki.

Ótrúlegt jafntefli því niðurstaðan og eiga strákarnir heldur betur gífurlegt hrós skilið fyrir endurkomuna. Með smá heppni hefðu þeir getað stolið sigrinum en við sættum okkur svo sannarlega við stigið. Það var greinileg þreyta í hópnum en enn og aftur sjáum við karakterinn að gefast ekki upp.

Patrekur Stefánsson og Dagur Gautason voru markahæstir með 7 mörk en Dagur gerði 2 úr vítum. Gauti Gunnarsson gerði 5 mörk, Einar Rafn Eiðsson 4, Dagur Árni Heimisson 4 og Einar Birgir Stefánsson 2.

Í markinu varði Bruno Bernat 4 skot en Nicholas Satchwell kom gífurlega sterkur inn í síðari hálfleik og varði 8 skot þar á meðal eitt víti.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is