Mikil handboltahelgi framundan

Það er óhætt að segja að handboltinn verði fyrirferðamikill á Akureyri um komandi helgi.

Meistaraflokkur Akureyrar tekur á móti Valsmönnum á sunnudaginn klukkan 17:00 en sá leikur var upphaflega settur á mánudagskvöldið.
Valsmenn sitja sem kunnugt er í efsta sæti Olís deildarinnar og slógu Akureyri út úr bikarkeppninni fyrir nákvæmlega mánuði síðan.

Strákarnir í 2. flokki Akureyrar eiga einnig heimaleik á sunnudaginn en þeir mæta Fjölni í Íþróttahöllinni klukkan 11:15 á sunnudaginn. Þar má reikna með hörkuleik, Akureyri vann útileik gegn Fjölni um síðustu helgi, 27-31 og þurfa nauðsynlega á sigri að halda í toppbaráttu deildarinnar.

Í 1. deild karla eiga Hamrarnir heimaleik gegn Fjölni á laugardaginn. Sá leikur er klukkan 14:00 í KA heimilinu. Hamrarnir eru í baráttu um að komast í umspil um sæti í úrvalsdeildinni og munu örugglega gefa allt í þennan leik.

Hjá 3. flokki karla koma Víkingar í heimsókn og leika þrjá leiki, tvo við KA og einn við Þór. Á föstudaginn klukkan 20:30 og á sunnudaginn klukkan 12:30 spilar KA við Víking og eru báðir leikirnir í KA heimilinu. Þór og Víkingur eigast við í Íþróttahúsi Síðuskóla klukkan 14:30 á laugardaginn.

Ekki er allt upptalið því einnig verður leikið í 4. flokki karla. Á laugardaginn klukkan 13:30 mætast eldra ár hjá Þór og Haukum í Íþróttahúsi Síðuskóla. Seinna á laugardaginn eða klukkan 16:00 mætast yngra ár KA og Hauka í KA heimilinu.

Meistaraflokkur kvenna hjá KA/Þór og 3. flokkur KA/Þór halda til Vestmannaeyja og leika þar á sunnudaginn (skv. nýjustu fréttum voru leikirnir færðir af laugardegi yfir á sunnudag vegna veðurútlits). Klukkan 10:00 mætast liðin í 3. flokki kvenna og klukkan 13:30 mætast liðin í meistaraflokki kvenna.

Hér höfum við yfirlit yfir heimaleikjaplan helgarinnar í tímaröð:

Dagur Tími Staður Lið Flokkur
Fös. 6. mars 20:30 KA heimilið KA - Víkingur 3. fl. karla
Lau. 7. mars 13:30 Síðuskóli Þór Ak. - Haukar 4. fl. karla eldra ár
Lau. 7. mars 14:30 Síðuskóli Þór Ak. - Víkingur 3. fl. karla
Lau. 7. mars 14:00 KA heimilið Hamrarnir - Fjölnir 1. deild karla
Lau. 7. mars 16:00 KA heimilið KA - Haukar 4. fl. karla yngra ár
Sun. 8. mars 11:15 Íþróttahöllin Akureyri - Fjölnir 2. fl. karla
Sun. 8. mars 12:30 KA heimilið KA - Víkingur 3. fl. karla
Sun. 8. mars 17:00 Íþróttahöllin Akureyri - Valur m.fl. karla