Það er ansi mikilvægur leikur í handboltanum í dag þegar KA tekur á móti ÍBV. KA er í svakalegri baráttu um sæti í úrslitakeppninni og þarf á sigri að halda gegn sterku liði gestanna. Leikurinn hefst klukkan 17:00 en við hvetjum ykkur eindregið til að mæta snemma og taka þátt í gleðinni.
Mikil dagskrá er í kringum leikinn en klukkutíma fyrir leik verður páskaeggjaskothittnileikur þar sem allir geta tekið þátt. Fyrstu 100 sem mæta á leikinn fá frían KA bol og þá er andlitsmálning í boði fyrir þá sem vilja. Lemon og Greifapizzur verða til sölu fyrir svanga stuðningsmenn.
Aðeins þrír leikir eru eftir af deildarkeppninni og fyrir leikinn í dag er KA í 8. sæti sem gefur einmitt þátttökurétt í úrslitakeppninni en aðeins einu stigi munar á KA og ÍR sem er í 9. sæti og því ansi mikilvægt að sækja fleiri stig. Leikurinn í dag er risastór í þeirri baráttu og við viljum sjá ykkur öll í KA-Heimilinu.
Ef þú kemst ómögulega í KA-Heimilið þá verður leikurinn í beinni á KA-TV og um að gera að fylgjast vel með gangi mála.