Meistaraflokkur KA/Þórs kemur vel undan sumri

Meistaraflokkur kvenna hjá KA/Þór keppti á æfingamóti í Vodafonehöllinni um helgina. 

Spiluðu stelpurnar við lið Stjörnunnar, Fylkis og Vals. Í leikjunum spilaði Nadia Boden, nýr leikmaður KA/Þórs sína fyrstu leiki ásamt því að Paula Chirila sem spilaði með liðinu í fyrra kom til landsins daginn fyrir mótið. 

Stelpurnar spiluðu ákaflega vel á mótinu og koma greinilega vel undan sumri. Þær gerðu jafntefli við Stjörnuna í fyrsta leik þar sem vörn og markvarsla var til fyrirmyndar. Sunna Guðrún Pétursdóttir, einn af efnilegri markvörðum landsins, spilaði frábærlega í leiknum og varði vel yfir 20 skot og í lokin kom Nadia Boden inn og lokaði markinu. 

Í morgun unnu norðanstúlkur Fylki í frábærum leik og enduðu mótið á eins marks tapi gegn Val í hörkuleik sem hefði auðveldlega getað fallið norðanmeginn.

Að sögn þjálfara spiluðu allar í hópnum virkilega vel, börðust og léku með hjartanu og voru félaginu til sóma. 

Þetta mót gefur góð fyrirheit fyrir veturinn þar sem allt kapp verður lagt á að koma KA/Þór ofar en á síðustu leiktíð. Það býr hellingur af hæfileikum í þessu liði og þetta mót ætti að sýna stelpunum að þær eru á pari við önnur lið þegar kemur að handboltalegri getu.

Nú er um að gera að þjappa sér á bak við stelpurnar í vetur og sýna fólki hversu frábærir stuðningsmenn Akureyri hefur að geyma.