Magnaður sigur KA/Þór á Haukum - myndir

Sibba átti stórleik í markinu
Sibba átti stórleik í markinu

KA/Þór gerði sér lítið fyrir í kvöld og vann frábæran sigur á Haukum, 25-24, í KA-heimilinu. Leikurinn var í járnum nánast allan tímann en lið KA/Þór var sterkara á lokasprettinum.

Haukar byrjuðu leikinn mun betur og voru KA/Þór-stúlkurnar klaufar í sóknaraðgerðum sínum. Mörk Hauka komu mestmegnis úr hröðum upphlaupum en þegar KA/Þór náði að stilla upp í vörn þá gekk allt mun betur. Fyrir aftan sterka vörnina var Sigurbjörg Hjartardóttir að verja vel.



Þjálfararnir Gunnar Ernir og Einvarður fara yfir málin.

Staðan í hálfleik, þegar áhorfendur gæddu sér á gæðakaffi og sætabrauði, var 14-12, Haukum í vil. Það er greinilegt að Einvarður Jóhannsson og Gunnar E. Birgisson fóru vel yfir málin með norðanstúlkum í hálfleik því þær komu gríðarlega vel stemmdar inn í síðari hálfleikinn. Vörnin var enn þéttari en í þeim fyrri og Sigurbjörg í banastuði fyrir aftan hana. 

Í sókninni dró Martha Hermannsdóttir vagninn en naut mikillar hjálpar frá meðspilurum sínum. Erla Hleiður var drjúg á línunni og Birta Fönn Sveinsdóttir lék einnig mjög vel. Það er erfitt að sleppa því að nefna ekki allar stelpurnar, en leikurinn var mjög góður að þeirra hálfu.

Lokakafli leiksins varð æsispennandi, í vænlegri stöðu 23-20 fékk Martha Hermannsdóttir sína þriðju brottvísun og var sá dómur vægast sagt umdeilanlegur. Martha var búin að eiga stórleik, stjórna leik liðsins og skora þar að auki níu mörk þannig að útlitið var dökkt.


Martha skoraði 9 mörk í kvöld og fékk rautt spjald.

Haukar gengu á lagið og náðu að jafna leikinn í 23-23 þegar 90 sekúndur voru til leiksloka. En stelpurnar í KA/Þór létu ekki slá sig út af laginu, Sigurbjörg Hjartardóttir lokaði markinu og af harðfylgi vannst vítakast. Erla Hleiður Tryggvadóttir skoraði af öryggi úr vítakastinu, Haukar tóku leikhlé og freistuðu þess að jafna leikinn. Ekki tókst það því dæmt var sóknarbrot á Haukastelpur og í kjölfarið tók Einvarður þjálfari einnig leikhlé.

Það sem fyrir var lagt gekk fullkomnlega upp því Katrín Vilhjálmsdóttir varð dauðafrí á línunni og henni urðu ekki á nein mistök og gulltryggði sigurinn með marki þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka.

Engu skipti þó að Haukar geystust í sókn og skoruðu síðasta mark leiksins, sætur sigur 25-24 og fögnuður stelpnanna mikill.

Mörk KA/Þór: Martha Hermannsdóttir 9 (2 úr vítum), Birta Fönn Sveinsdóttir 4, Erla Heiður Tryggvadóttir 4 (1 víti), Simone Antonia 4, Katrín Vilhjálmsdóttir 2, Arna Valgerður Erlingsdóttir 1 og Laufey Lára Höskuldsdóttir 1.
Sigurbjörg átti stórleik í markinu og varði 22 skot.

Mörk Hauka: Marija Gedroit 6, Viktoría Valdimarsdóttir 5, Agnes Ósk Egilsdóttir 3, Herdís Hallsdóttir 3, Ragnheiður Ragnarsdóttir 3, Kolbrún Gígja Einarsdóttir 2, Gunnhildur Pétursdóttir 1 og Karen Helga Díönudóttir 1.

Þetta var annar heimaleikur stelpnanna og annar sigurinn. Það er greinilegt að KA-heimilið ætlar að reynast þeim vel í vetur enda er virkilega gaman að sjá hversu margir leggja leið sína á leikina. Næsti heimaleikur hjá stelpunum er sunnudaginn 20. október gegn Fram.

Þá er um að gera að minna á að ársmiðar eru enn til sölu fyrir litlar 5.000 kr. Hægt er að nálgast þá með því að setja sig í samband við leikmenn, þjálfara eða stjórnarmenn félagsins.

Skoða fleiri ljósmyndir frá leiknum.