Magnaður leikur KA/Þór og ÍBV - myndir

Það var sannkallaður hörkuleikur þegar KA/Þór tók á móti ÍBV í N1-deild kvenna í handknattleik á laugardaginn. Eyjastúlkur unnu að lokum tveggja marka sigur, 24-22, en staðan í hálfleik var 12-14, ÍBV í vil. Florentina Staciu átti stórleik í marki ÍBV og varði 23 skot. ÍBV fer í nítján stig í þriðja sæti deildarinnar en KA/Þór hefur átta stig í því sjöunda og eygir enn von um að komast áfram í úrslitakeppnina þrátt fyrir tap í leiknum.


Það virtist allt stefna í öruggan Eyjasigur í KA-heimilinu á laugardaginn. Florentina Staciu í marki ÍBV setti í lás strax í byrjun og ÍBV náði fljótt þægilegri forystu en mestur varð munurinn fimm mörk í fyrri hálfleik. ÍBV hafði yfirburði á flestum sviðum handboltans en norðanstúlkur létu ekki slá sig útaf laginu og minnkuðu muninn í eitt mark. ÍBV átti lokaorðið í fyrri hálfleik og höfðu yfir í leikhléi, 14-12.

KA/Þór náði að jafna leikinn í 15-15 þegar átta mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og var þá í fyrsta sinn jafnt í tölum í leiknum. Norðanstúlkur komust svo þremur mörkum yfir, 20-17, þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Með góðum kafla komst ÍBV yfir á ný hafði tveggja marka forystu, 23-21, þegar tvær mínútur lifðu leiks. Eftir spennandi lokamínútur voru það Eyjastúlkur sem fögnuðu sigri, 24-22.

Mörk KA/Þórs: Martha Hermannsdóttir 9 (6), Kolbrún Gígja Einarsdóttir 5, Ásdís Sigurðardóttir 4, Katrín Vilhjálmsdóttir 2, Kolbrá Ingólfsdóttir 1, Erla Heiður Tryggvadóttir 1.
Varin skot: Frida Petersen 15 (1).

Mörk ÍBV: Ivana Mladenovic 10, Aníta Elíasdóttir 3, Þórsteina Sigurbjörnsdóttir 2 (1), Mariana Trebojovic 3, Kristrún Hlynsdóttir 2, Grigore Ggorgata 3, Ester Óskarsdóttir 1 (1).
Varin skot: Florentina Staciu 23.

Umfjöllun fengin frá Þresti Erni Viðarssyni blaðamanni Vikudags.

Sjá fleiri myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum.