Loks leikur í 2. deild kvenna á Akureyri - Góður sigur á Víkingum

KA/Þór og Víkingur léku í 2.deild kvenna í handboltanum á laugardag.  Liðin voru jöfn í 2.-3. sæti deildarinnar og því búist við jöfnum leik.  Framan af leik var jafnræði með liðunum en þegar líða tók á hálfleikinn seig KA/Þór fram úr og náði þriggja marka forustu fyrir hlé, 15-12.  Munaði þar mestu um að góða vörn og nokkur hraðaupphlaup sem skiluðu þessu forskoti.

Sami munur hélst í síðari hálfleik og  þrátt fyrir góða baráttu Víkinga tókst þeim  ekki að minnka muninn sem jókst í 5-6 mörk þegar leið á leikinn og lokatölur urðu 32-27.  KA/Þór lék vel í leiknum og sérstaklega var varnarleikurinn öflugur með Mörthu Hermannsdóttur, Erlu Tryggvadóttur í hjarta varnarinnar.  Einnig munar miklu að Emma Sardarsdóttir er kominn í liðið á nýjan leik og lék hún vel bæði í vörn og sókn.

Mörk KA/Þórs í leiknum skoruðu Martha Hermannsdóttir 8, Erla Tryggvadóttir og Emma Sardarsdóttir 5 mörk hvor, Arndís Heimisdóttir 4, Steinþóra Heimisdóttir og Jóhanna Ósk Snædal 3 mörk hvor, Iðunn Birgisdóttir 2 og Sunnefa Nílsdóttir og Kolbrún Einarsdóttir 1 mark hvor.
Fyrir Víkinga var fyrrum landsliðskonan Hekla Daðadóttir langatkvæðamest með 12 mörk.


Eftir leikinn er KA/Þór í öðru sæti deildarinnar og tekur einmitt á móti toppliði deildarinnar hér á heimavelli um næstu helgi.  Hér má sjá stöðuna í deildinni.