Á föstudaginn tekur KA á móti Ungmennaliði Vals í lokaumferð Grill 66 deildar karla. Leikurinn hefst klukkan 19:30 og er alveg klárt að strákarnir þurfa á þínum stuðning að halda!
Það má með sanni segja að mikið sé undir í lokaumferðinni en KA er í öðru sæti deildarinnar og á enn möguleika á sigri í deildinni. Til að það gerist þarf liðið að sigra Ungmennalið Vals og treysta á að HK leggi Akureyri að velli.
Í síðustu umferð vann KA ótrúlegan 23-22 sigur á HK sem gerir það að verkum að HK þarf að minnsta kosti stig úr leik sínum gegn Akureyri til að fá heimaleikjarétt í einvígi sínu gegn Þrótti í komandi umspili um laust sæti í efstu deild að ári.
Ekki missa af mögnuðum leik í KA-Heimilinu, frítt inn fyrir 16 ára og yngri og aðeins 1.000 krónur inn fyrir aðra, áfram KA!
Leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á KA-TV fyrir þá sem ómögulega komast í KA-Heimilið.