Lokahóf KA/Þórs fór fram laugardaginn 16. maí sl. Veitt voru verðlaun fyrir besta og efnilegasta leikmann tímabilsins.
Birta Fönn Sveinsdóttir var valinn besti leikmaðurinn. Birta lék gríðarlega vel í vetur og sýndi það að þrátt fyrir ungan aldur þá er hún með betri vinstri hornamönnum deildarinnar. Birta skoraði tæp 90 mörk í 22 leikjum í vetur og var þar með einn af markahæstu leikmönnum deildarinnar í sinni stöðu.
Einnig spilaði Birta gríðarlega stórt hlutverk varnarlega en hún var einn af lykilmönnum liðsins í öllum varnarafbrigðum. Hún hefur einnig unnið sér inn fast sæti í u-19 ára landsliði Íslands og hefur verið að spila vel í landsliðsbúningnum.
Efnilegasti leikmaðurinn var svo Sunna Guðrún Pétursdóttir. Sunna er markvörður og þrátt fyrir að vera einungis á 17. ári þá hefur hún leikið 2 ár í meistaraflokki og staðið sig gríðarlega vel.
Sunna hefur einnig unnið sér inn fast sæti með u-17 ára landsliði Íslands og staðið sig vel þar. Sunna er þar með einn af efnilegri markmönnum landsins. Stelpurnar hafa unnið hörðum höndum og eru vel að þessum viðurkenningum komnar.
Við hjá KA.is óskum þeim Birtu og Sunnu innilega til hamingju.