26.04.2010
Í kvöld verður skorið úr um hvort það verður Akureyri eða Valur sem mætir Haukum í lokarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn. Liðin
mætast í Vodafone-höllinni klukkan 19:30 og ef að líkum lætur verður barist til síðustu andartaka leiksins.
Eftir sigur Valsmanna hér fyrir norðan er ljóst að stemmingin er þeirra megin en það er að sama skapi á hreinu að ýmsir lykilmenn Akureyrar
áttu arfaslakan dag í síðasta leik og maður trúir því ekki að þeir ætli að enda tímabilið þannig.
Það er ágætt að hafa í huga að fyrir átta árum í einvígi Vals og KA voru norðanmenn komnir með bakið upp að vegg,
búnir að tapa tveim leikjum í framlengingu, síðast á eigin heimavelli. Í þriða leiknum, sem hefði getað orðið sá
síðasti blómstraði liðið hins vegar, sýndi allar sínar bestu hliðar, vann glæsilegan sigur og leit ekki um öxl það sem eftir var
það árið. Við treystum okkar strákum fullkomnlega til að mæta til leiks í kvöld með sama hugarfar.
Samkvæmt frétt á vef RUV ætlar sjónvarpið að sýna leikinn beint og allir hvattir til að fylgjast með auglýstri dagskrá
sjónvarpsins fyrir kvöldið.