Leikur dagsins: Hamrarnir - Akureyri U

Það er komið að Akureyrarslag í 1. deild karla. Ungmennalið Akureyrar sækir Hamrana heim í KA heimilið klukkan 19:30 í kvöld. Liðin eru jöfn að stigum í 9. og 10. sæti deildarinnar þannig að það er allt undir.

Með Ungmennaliðinu spila ungir og upprennandi handboltamenn en Hamrarnir hafa innan sinna vébanda reynslubolta og nokkrar goðsagnir Akureyskrar handboltasögu. Það verður fróðlegt að sjá hverjir komast í liðið hjá Hömrunum í kvöld en allavega er ljóst að það verður ekkert gefið eftir og því von á stórskemmtilegum leik.

Heyrst hefur að það sé þó nokkur taugatitringur í mönnum í tengslum við leikinn. Þannig hafa Hamrarnir verið að bæta við sig leikmönnum fyrir leikinn, dómarinn Heimir Örn Árnason skráði félagaskipti yfir í Hamrana á dögunum eftir að hafa leikið með Þrótti í Vogum í Coca Cola bikarnum. Sömuleiðis skráði Ragnar Snær Njálsson félagaskipti yfir í Hamrana frá Þýskalandi.

Þá vakti athygli að Jón Heiðar Sigurðsson, leikmaður Hamranna var mættur á lokaæfingu Ungmennaliðs Akureyrar í gær til að „njósna“ um leikkerfi liðsins.

Samkvæmt reglum um ungmennalið skulu leikmenn ekki vera eldri en 23 ára en þó er heimilt að hafa tvo eldri leikmenn í hópnum. Heyrst hefur að Ungmennalið Akureyrar hafi ætlað að bregðast við liðssöfnun Hamranna með því að stilla upp gamalreyndum landsliðsmönnum en hvort af því verður kemur í ljós í kvöld.

Stefnt er að því að sýna leikinn í beinni á Akureyri TV enda vitað af fjölmörgum áhugamönnum út um allan heim sem bíða eftir leiknum. Útsendingin hefst skömmu fyrir leik, smelltu hér til að fylgjast með.