Leikur dagsins: FH - Akureyri í beinni á Akureyri TV

Það er heldur betur nóg að gera í handboltanum þessa dagana og stutt á milli leikja. Meistaraflokkur Akureyrar heldur suður í Hafnarfjörð í dag til að glíma við FH. Leikurinn hefst klukkan 16:00 í Kaplakrikanum og munum við sýna hann beint á Akureyri TV.

FH liðið hefur verið á mikilli siglingu í Olísdeildinni og unnið síðustu sex leiki sína sem hefur lyft þeim upp í annað sæti deildarinnar. Liðin mættust einmitt á sama stað fyrir mánuði síðan og þar vann FH sigur 33-27 í býsna sveiflukenndum leik. Þar voru það þeir Einar Rafn Eiðsson, Óðinn Þór Ríkharðsson og Ásbjörn Friðriksson sem fóru fyrir FH-ingum en saman skoruðu þeir 24 af mörkum liðsins.

Akureyri vann góðan sigur á Aftureldingu á fimmtudaginn og fara með það veganesti í leikinn. Við hvetjum að sjálfsögðu fjölmarga stuðningsmenn liðsins til að fjölmenna á leikinn en þeir sem ekki komast ættu að fylgjast með útsendingunni hér á síðunni.

SMELLTU HÉR TIL AÐ FYLGJAST MEÐ ÚTSENDINGUNNI.