Leikur dagsins: Akureyri – Valur í úrslitakeppni 2. flokks

Handknattleikstímabilið er hreint ekki búið fyrir Akureyringa þar sem 2. flokkur Akureyri Handboltafélags heldur merkinu uppi þessa dagana. Í kvöld (mánudaginn 15. apríl) leika strákarnir gegn Val hér í Íþróttahöllinni og hefst leikurinn klukkan 19:00. Það eru leikin 8 liða úrslit í 2. flokki þar sem efstu sex liðin í deildarkeppninni leiða saman hesta sína ásamt tveim efstu úr 2. deildinni.



Akureyri hafnaði í 4. sæti 1. deildar og Valur í því 5. Í úrslitakeppninni er aðeins leikin einföld umferð þannig að ljóst er að sigurvegari þessa leiks heldur áfram í fjögurra liða úrslitin. Þetta er síðasti leikur 8 liða úrslitanna en þar eru FH, Haukar og Afturelding búin að tryggja sig áfram. Það verða síðan annaðhvort Akureyri eða Valur sem mæta FH í fjögurra liða úrslitunum.

Akureyri og Valur mættust tvisvar í deildarkeppninni í vetur og voru báðir leikirnir hörkuspennandi. Fyrri leiknum sem var í Vodafone höllinni lauk með jafntefli 24-24 en Akureyri vann heimaleikinn með tveim mörkum, 28-26.

Akureyrarliðið varð Íslandsmeistari 2. flokks í fyrravor og ætlar sér að fara alla leið og verja titilinn. Til þess þarf að sjálfsögðu sigur á Val og ef það tekst þá tekur við útileikur gegn FH um það hvort liðið fer í úrslitaleikinn (sem væntanlega verður leikinn á suðvesturhorninu). Við hvetjum allt áhugafólk um handbolta til að fjölmenna í Íþróttahöllina og styðja strákana í væntanlega síðasta heimaleiknum hér fyrir norðan á tímabilinu.

Það má gera ráð fyrir að í leikmannahópi Akureyrarliðsins verði um það bil 10 leikmenn sem hafa komið við sögu með meistaraflokki Akureyrar í vetur. Leikurinn hefst klukkan 19:00.

Með handboltakveðju,
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.