Leikur dagsins: Akureyri - Valur í Höllinni

Það hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að það er stórleikur í Höllinni í dag. Akureyri mætir þar Val og rétt að ítreka óvenjulegan leiktíma en leikurinn hefst klukkan 18:00. Leikir liðanna hafa verið frábær skemmtun í gegnum árin og við vonumst eftir því að sjá sem flesta á pöllunum í dag og treystum á að stemmingin verði mögnuð!

Í leiðinni er rétt að minna á að það er stutt í næsta leik, strax á sunnudaginn, klukkan 15:00 mæta Íslandsmeistararnir í ÍBV í Höllina og þar á Akureyri svo sannarlega harma að hefna frá síðasta ári.

En það er fleira framundan fyrir handboltaáhugamenn, á föstudaginn klukkan 19:00 er leikur hjá 2. flokki Akureyrar gegn Fram en leikurinn er liður í forkeppni um röðun liða í deildir fyrir veturinn.

Á laugardaginn klukkan 14:00 er leikur í Olís-deild kvenna þar sem KA/Þór fær Hauka í heimsókn. Sá leikur verður í KA-heimilinu.

Á sunnudaginn eru síðan tveir leikir í Höllinni, klukkan 13:00 mætast Hamrarnir og ÍH í 1. deild karla og þar á eftir, klukkan 15:00 er leikur Akureyrar og ÍBV eins og áður segir.

Það eru sem sé sannkallaðir handboltadagar á Akureyri framundan - byrjum í Höllinni í dag og rétt að minna þá sem ekki hafa náð sér í Gullkort (stuðningsmannaskírteini) að koma tímanlega til að ná sér í kort.