Leikur dagsins: Akureyri – Fram í Íþróttahöllinni klukkan 19:00

Þá er runninn upp leikdagur hjá Akureyri Handboltafélagi þar sem Safamýrarpiltarnir í Fram koma í heimsókn. Ekki þarf að hafa mörg orð um mikilvægi leiksins enda hvert stig ofurdýrmætt í deildinni þar sem öll liðin (nema eitt) hafa verið að reyta stig hvert af öðru.
Liðin mættust í 2. umferð deildarinnar og þá náði Akureyrarliðið frábærum leik og vann góðan fimm marka sigur í Safamýrinni. Liðið sýndi einnig frábæra stemmingu í síðasta leik gegn FH og óhætt að lofa frábærri stemmingu í Höllinni í kvöld.

Tveir leikmenn Fram eru upprunnir héðan að norðan, Ólafur Jóhann Magnússon er okkur að góðu kunnur en hann var í Íslandsmeistaraliði Akureyrar í 2. flokki í fyrravor.  Annar fyrrum liðsmaður okkar, Hákon Stefánsson (frá Fagraskógi) er farinn að leika með Framliðinu á nýjan leik. Við bjóðum þá og aðra Framara velkomna á heimaslóðir í dag.


Ólafur kemur engum vörnum við gegn Bjarna Fritzsyni í fyrri leik liðanna.

Það er rétt að benda á að þetta er næstsíðasti heimaleikur Akureyrarliðsins í N1-deildinni á árinu þannig að bæði leikmenn og stuðningsmenn gera örugglega sitt besta til að halda uppi fjörinu.