Leikmannakynning Akureyrar í Höllinni á fimmtudaginn

Það er orðin löng hefð fyrir því að hefja handboltavertíðina með kynningarfundi þar sem farið er yfir starfsemi félagsins og ekki síst að kynna leikmannahópinn fyrir stuðningsmönnum. Fimmtudaginn 12. september, klukkan 20:00 er komið að kynningunni og hvetjum við allt áhugafólk um handbolta til að koma í Íþróttahöllina og kynna sér starfsemi og leikmannahóp Akureyrar Handboltafélags í vetur.

Þjálfarar meistaraflokks þeir Bjarni Fritzson og Heimir Örn Árnason kynna leikmannahópinn en líkt og á hverju ári eru einhverjar breytingar á hópnum. Akureyri hefur fengið fimm nýja leikmenn til liðs við sig auk þess sem nokkrir knáir ungliðar koma úr yngri flokkum í bland við þá sem fyrir eru. Þessir kappar fylla skörð þeirra sem róið hafa á önnur mið.

Þjálfari 2. flokks er Sigurður Brynjar Sigurðsson en líkt og undanfarin ár er stór hópur sem æfir þar af krafti.

Starfsemi stuðningsmannaklúbbsins verður kynnt en hún verður með svipuðu sniði og síðasta tímabil. Gullkortið verður selt á staðnum en handhafar þeirra njóta ýmissa fríðinda. Aðgöngumiði á alla heimaleiki í deildinni, frátekið sæti í stúkunni, glæsilegar veitingar fyrir leik og í hálfleik svo eitthvað sé nefnt. Verð gullkortsins er óbreytt frá síðasta vetri, 25.000 krónur.

Stuðningsmannaskírteini 2013-2014

Akureyri Handboltafélag á dyggan stuðningsmannaklúbb sem stendur þétt að baki félaginu og skapar frábæra stemmingu í kringum heimaleikina. Heimaleikir í N1 deildinni verða að minnsta kosti 10 en 11 ef liðið verður í hópi fjögurra efstu eftir fyrstu fjórtán umferðirnar.

Líkt og síðasta vetur nefnist félagsskírteini stuðningsmannaklúbbsins Gullkort. Innifalið í Gullkortinu er:

  • Aðgangur að öllum heimaleikjum Akureyrar í N1 deildinni, engin biðröð í miðasölunni menn sýna einfaldlega kortið.
  • Hluti áhorfendastúkunnar í Höllinni er frátekinn fyrir stuðningsmannaklúbbinn og geta þeir sem þess óska fest sér ákveðið sæti. Þeir sem festa sér sæti ganga einnig að þeim vísum á bikarleikjum og úrslitakeppni.
  • Aðgangur að stuðningsmannaherbergi fyrir leiki og í hálfleik en þar er á boðstólum heitur matur fyrir leik og kaffihlaðborð í hálfleik. Eftir leiki koma menn saman og fara yfir gang mála ásamt leikmönnum og þjálfurum. Stuðningsmannaherbergið er að sjálfsögðu einnig opið í bikarleikjum og ef liðið kemst í úrslitakeppnina.
  • Á tveim leikjum á tímabilinu verða sannkallaðar stórveislur í boði fyrir Gullkortahafa en þá verður sérstaklega mikið lagt í allar veitingar.
  • Gullkortin eru númeruð og geta handhafar þeirra átt von á því að verða þátttakendur í happdrættum á heimaleikjum þar sem veglegir vinningar verða í boði.
  • Fleiri atriði sem Gullkortshöfum standa til boða verða kynnt á leikmannakynningunni næstkomandi fimmtudagskvöld í Íþróttahöllinni.
  • Verð á Gullkortinu er 25.000.- krónur. Fyrir þá upphæð fæst eins og að framan greinir aðgangur að allt að 11 leikjum, auk þess að minnsta kosti 11 máltíðir og kaffihlaðborð.
  • Smelltu hér til að panta Gullkortið

Boðið er upp á nokkrar greiðsluleiðir auk þess sem hægt er að semja um raðgreiðslur ef það hentar. Sala kortanna hefst fyrir alvöru á leikmannakynningunni, þau verða einnig seld á heimaleikjum og hægt er að leggja inn pöntun á heimasíðu Akureyrar Handboltafélags.

Við hvetjum áhugasama til að verða sér úti um skírteinin tímanlega til að fá sem mest fyrir peninginn.

Fyrsti heimaleikur Akureyrar Handboltafélags er svo fimmtudaginn 19. september þegar við fáum Íslandsmeistara Fram í heimsókn.