Mikil leikjatörn er að ganga í garð í KA-heimilinu á morgun þegar 3. flokkur kvenna hjá KA/Þór mætir HK kl. 17:15. HK er án stiga á botni 1. deildarinnar en KA/Þór er einu sæti ofar með 1 stig. Þetta verður því að öllum líkindum hörkuleikur og eru stelpurnar í KA/Þór staðráðnar að næla sér í sinn fyrsta sigur á morgun.
Um helgina eru svo tveir heimaleikir hjá stelpunum en á laugardaginn mæta þær Haukum kl. 16:00 í KA-heimilinu og eru Haukar með sterkt lið og þar munu mætast stálin stinn. Á sunnudaginn kemur svo Fram í heimsókn kl. 13:30. Liðin hafa mæst einu sinni í vetur og lauk þeim leik með naumum sigri Fram 28-24 þar sem Fram seig framúr á lokamínútum leiksins. Það má því búast við hörkurimmum hjá 3. flokki kvenna nú í vikunni.
4. flokkur karla er einnig í eldlínunni í vikunni. Flokkurinn teflir fram tveimur liðum og keppa þau í sömu deild. Liðin mættust innbyrðis í gær (mánudag) og þar bar KA 1 sigur úr bítum á móti KA 2.
Á föstudaginn mætir KA 2 svo Haukum kl. 20:00 í KA-heimilinu, en á laugardaginn spilar KA 1 við Hauka kl. 18:00 einnig í KA-heimilinu.
3. flokkur karla hjá KA spilar svo á laugardaginn kl. 13:30 í KA-heimilinu á móti Fram. Lið Fram er gríðarlega sterkt og þurfa KA strákarnir að leggja sig alla fram til þess að sigra, þetta verður hörkuleikur.
Við hvetjum því sem flest handboltaáhugafólk að mæta í KA-heimilið í vikunni og um helgina til að fylgjast með skemmtilegum handboltaleikjum.