Á morgun, sunnudag, fer fram hið glæsilega strandhandboltamót sem KA/Þór stendur fyrir og er hluti af fjölskylduhátíðinni Ein með Öllu. Keppt er í þremur flokkum og ljóst að mikil eftirvænting er fyrir þessu skemmtilega móti.
Krakkahóparnir hefja leik klukkan 10:45 en þar er keppt í yngri og eldri hóp. Fimm lið taka þátt í yngri hópnum en þar leika öll liðin einn leik á móti hvort öðru og fá því öll lið fjóra leiki á mótinu. Í eldri krakkahópnum eru átta lið og er leikið í tveimur fjögurra liða riðlum. Eftir þrjár umferðir mætast svo efstu tvö liðin í leik um gullið, næstu tvö um bronsið og svo framvegis. Öll lið fá því fjóra leiki.
Í kjölfarið kl. 14:00 tekur svo við flokkur fullorðinna en þar keppa átta lið og er sama fyrirkomulag á þeirri keppni og í eldri krakkahópnum.
Hver leikur er 10 mínútur og mikilvægt að við náum að halda plani og hvetjum við því liðin til að mæta tímanlega fyrir mót og halda sig á leikstað á meðan mótið fer fram.