Landsliðsverkefni í handboltanum

Stelpurnar í U-20 náðu jafntefli á HM
Stelpurnar í U-20 náðu jafntefli á HM

Það er nóg um að vera hjá okkar fólki í verkefnum með unglingalandsliðunum í handboltanum þessa dagana. Þá eru bæði strákar og stelpur í 4. flokki stödd á Partille Cup í Svíþjóð þessa dagana þannig að það er sko ekkert sumarfrí hjá okkar fólki í handboltanum.

KA/Þór á tvo fulltrúa í U-20 landsliði kvenna sem tekur þátt á HM í Ungverjalandi. en það eru þær Ásdís Guðmundsdóttir og Aldís Ásta Heimisdóttir. Liðið lék sinn fyrsta leik í gær gegn Suður-Kóreu, þær Kóresku byrjuðu betur en Íslenska liðið gerði vel í að jafna metin og úr varð hörkuendakafli. Lokatölur voru svo 29-29 og gerði Ásdís 3 mörk í leiknum. Í dag mætir liðið svo Slóveníu.

U-16 ára landslið kvenna er að leika á European Open en í hópnum er Rakel Sara Elvarsdóttir fulltrúi okkar úr KA/Þór. Liðið lék tvo leiki í gær, fyrst gegn Finnlandi og eftir að hafa náð góðu forskoti í síðari hálfleik þá kom slæmur kafli og tapaðist leikurinn 10-13. Því næst mættu stelpurnar ógnarsterku liði Spánverja og tapaðist sá leikur 24-13, Rakel Sara gerði 1 mark í leiknum.

Dagur Gautason lék með U-18 á Nations Cup í Lübecke í Þýskalandi þar sem liðið vann Noreg 26-25 í fyrsta leik og gerði Dagur 4 mörk í leiknum. Næsti leikur var gegn heimamönnum í Þýskalandi og eftir hörkuleik þurftu okkar strákar að sætta sig við 25-26 tap og gerði Dagur 1 mark í leiknum. Í lokaleiknum gerði liðið svo 28-28 jafntefli gegn Ísrael þar sem Dagur gerði 4 mörk.