Kamil Pedryc til liðs við KA

Handbolti
Kamil Pedryc til liðs við KA
Velkominn í KA Kamil!

Handknattleiksdeild KA barst í dag góður liðsstyrkur þegar Kamil Pedryc skrifaði undir tveggja ára samning við félagið. Kamil sem verður 29 ára síðar í mánuðinum er afar öflugur línumaður sem ætti bæði að styrkja sóknar- og varnarlínu okkar unga liðs á komandi vetri.

Kamil er stór og stæðilegur en hann er 197 cm á hæð og um 100 kíló. Hann gengur í raðir KA frá pólska liðinu Zaglebie Lubin. Þar áður lék hann með pólsku liðunum Energa MKS Kalisz og UNIA Tarnow.

Það er ljóst að koma Kamil sendir skýr skilaboð að okkar unga en öfluga lið ætlar sér enn stærri hluti á komandi tímabili en KA liðið tryggði sér að nýju sæti í úrslitakeppninni í vetur. Bjarni Ófeigur Valdimarsson skrifaði undir samning við félagið á dögunum og þá hefur handknattleiksdeildin framlengt samninga sína við flesta af hinum ungu og efnilegu leikmönnum sem léku lykilhlutverk í vetur.

Við bjóðum Kamil velkominn í KA og bíðum spennt eftir því að fylgjast með honum í gula og bláa búningnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is