KA U með tvo útisigra um helgina

Brosmildir eftir sigurinn á Aftureldingu
Brosmildir eftir sigurinn á Aftureldingu

Strákarnir í Ungmennalið KA gerðu heldur betur góða ferð suður um helgina þar sem þeir léku fyrstu leiki sína í 2. deild karla. Á laugardaginn mættu þeir Ungmennaliði Fram í Safamýrinni. Fram byrjaði leikinn af krafti og komst í 2-0 en KA liðið náði fljótlega yfirhöndinni og lét hana ekki af hendi.

Í hálfleik leiddu þeir með fjórum mörkum, 11-15 og er óhætt að segja að Einar Logi Friðjónsson hafi farið hamförum í hálfleiknum með níu mörk.

Strákarnir héldu frumkvæðinu út leikinn sem lauk með þægilegum þriggja marka sigri KA, 25-28. Einar Logi hélt áfram stórleik sínum og bætti við fimm mörkum í seinni hálfleik en einnig var Svavar Ingi Sigmundsson í miklum ham í markinu, varði alls 18 skot og þar á meðal öll fjögur vítin sem Fram fékk í leiknum.

Mörk KA U: Einar Logi Friðjónsson 14 (3 úr vítum), Jóhann Einarsson 5, Jón Heiðar Sigurðsson (yngri) 4, Fannar Már Jónsson 2, Þorri Starrason 2 og Arnór Ísak Haddsson 1 mark.
Svavar Ingi Sigmundsson varði eins og áður segir 18 skot þar af 4 víti.

Á sunnudeginum lá leið strákanna í Mosfellsbæinn þar sem Ungmennalið Aftureldingar beið þeirra. Fannar Már Jónsson varð fyrir slæmum meiðslum í Fram leiknum og var því ekki með í leiknum. Mikið jafnræði var með liðunum en Afturelding leiddi með einu marki í hálfleik, 15-14.

Heimamenn í Aftureldingu voru þrem mörkum yfir þegar stutt var til leiksloka en á lokakaflanum hrökk Svavar Ingi í mikinn ham og lokaði markinu. Félagar hans gengu á lagið og að lokum knúði KA liðið fram sætan eins marks sigur 28-29 og fögnuðu að sjálfsögðu vel í leikslok.

Einar Logi og Jóhann Einarsson voru allt í öllu í sóknarleik KA liðsins og réðu Mosfellingar ekkert við þá.

Mörk KA U: Einar Logi Friðjónsson 13, Jóhann Einarsson 12, Einar Birgir Stefánsson 2 og Jón Heiðar Sigurðsson 2.
Svavar Ingi og Magnús Orri Aðalsteinsson hafa átt betri dag í markinu en Svavar hrökk heldur betur í gang undi lokin.

Sannarlega góður árangur hjá strákunum og fullt hús eftir tvo leiki í deildinni.