Það var hörkuleikur í KA-Heimilinu í gær er Ungmennalið KA tók á móti Ungmennaliði FH í Grill 66 deild karla í handboltanum. Fyrir leikinn voru bæði lið með fjögur stig eftir fyrstu þrjá leiki vetrarins og klárt mál að hart yrði barist um stigin tvö sem í boði voru.
Gestirnir byrjuðu betur og komust í 0-2 en þá small okkar lið í gang og komust í kjölfarið í 4-2. Strákarnir náðu jafnt og þétt að auka muninn og voru hálfleikstölur 18-13 en mestur varð munurinn sex mörk.
Í upphafi síðari hálfleiks bættu strákarnir enn við forskotið og komust mest átta mörkum yfir áður en gestirnir úr Hafnarfirði gerðu áhlaup. Er 10 mínútur lifðu leiks var munurinn kominn niður í tvö mörk og skyndilega mikil spenna í leiknum.
Strákarnir gerðu þá næstu þrjú mörk leiksins en aftur tókst FH-ingum að minnka muninn niður í tvö mörk. Sem betur fer komust þeir ekki nær og að lokum vannst 35-30 sigur og strákarnir því komnir með sex stig í þessari sterku deild sem Grill 66 deildin er.
Sigþór Gunnar Jónsson var markahæstur í liði KA U en hann gerði 14 mörk, þar af 5 úr vítum. Næstir voru Jóhann Einarsson með 9 mörk, Aron Daði Bergþórsson 4, Þorri Starrason 3, Sigþór Árni Heimisson 2, Jón Heiðar Sigurðsson 2 og Arnór Ísak Haddsson 1 mark.
Í markinu varði Svavar Ingi Sigmundsson alls 21 skot og þar af voru 3 vítaköst.