Ungmennalið KA í handboltanum átti frábæra ferð suður um helgina en liðið lék tvo leiki og vann þá báða. Fyrir helgina voru strákarnir á toppi 2. deildar með fullt hús stiga eftir fyrstu fjóra leikina. Stefán Árnason og Andri Snær Stefánsson þjálfa liðið.
Í gær sóttu strákarnir lið HK U heim og vannst á endanum nokkuð þægilegur 26-30 sigur en KA liðið leiddi 12-16 í leikhléinu og var sterkari aðilinn í leiknum. Magnús Orri Aðalsteinsson lék í marki KA og stóð sig með prýði.
Mörk KA-U í leiknum: Jóhann Einarsson 9 mörk, Einar Birgir Stefánsson 7, Elfar Halldórsson 6, Heimir Pálsson 3, Þorri Starrason 3, Bjarki Reyr Tryggvason 1 og Jón Heiðar Sigurðsson 1 mark.
Það var hinsvegar búist við enn erfiðari leik í dag þegar leikið var gegn Fjölni U. Fjölnisliðið var eins og okkar lið með fullt hús stiga og því mikið undir í leiknum. KA liðið sýndi hinsvegar mjög góðan leik og leiddi 13-17 í hléinu. Í þeim síðari keyrðu strákarnir svo yfir Grafarvogsliðið og unnu 27-35 sigur.
Mörk KA-U í leiknum: Elfar Halldórsson 10, Einar Birgir Stefánsson 9, Þorri Starrason 7, Jóhann Einarsson 7 og Hafþór Helgi Þórisson 2.
Ungmennalið KA er því í frábærum málum eftir fyrstu 6 leiki vetrarins en leiknar eru 14 umferðir í deildinni og því enn nóg eftir. Það er vonandi að þetta magnaða lið okkar nái að halda sama dampi í næstu leikjum.