Stelpurnar í 3. flokk spiluðu sinn þriðja leik í deildinni nú um helgina gegn liðinu í 2. sæti, Haukum.
Leikurinn var nokkuð jafn í fyrri hálfleik en alltaf beið maður eftir því að stelpurnar tækju úr 1. gír og færu fram
úr. Haukar leiddu með einu marki í hálfleik 10-11 og KA/Þór síst lakara liðið.
Síðari hálfleikur spilaðist afskaplega undarlega. Stelpurnar hættu algjörlega að spila vörn enda andleysið algert varnarlega. Sóknarlega
þokaðist leikurinn ágætlega áfram en það er erfitt að vinna leik þegar vörnin er engin. Stelpurnar fóru að hengja haus eftir
tíu mínútna leik og baráttan og leikgleðin var hvergi sjáanleg.
Leikurinn endaði með fjögurra marka sigri Hauka 25-29. Haukar skoruðu sem sagt 18 mörk í síðari hálfleik og þar af voru einungis tvö
mörk úr hraðaupphlaupi.
Það þýðir þó engan veginn að hengja haus. Stelpurnar vita það best sjálfar að þær eiga miklu meira inni.
Þær eiga eftir að spila sig saman og læra betur inn á hvor aðra.
Byrjunin hefur verið heldur brösótt, tap gegn Fylki, jafntefli við Fram og nú tap gegn Haukum. Það er þó hægt að hugga sig við
að þessi þrjú lið eru það sem kallast topplið í deildinni en hún er nokkuð jöfn heilt yfir og allir að vinna alla.
Stelpurnar eru alls ekki slakari í handbolta heldur en þessi lið en þau lið eru hins vegar komin betur inn í deildina. Hvort sem það er út af
fleiri leikjum spiluðum eða einhverju öðru skal látið ósagt. Hins vegar er ljóst að þegar KA/Þór finnur loksins fjölina
sína er hægt að fara að ætlast til einhvers af þeim.
Nú bíður maður hins vegar þolinmóður.