KA/Þór stelpur í yngri landsliðum

Yngri landslið kvenna eru að koma saman um þessar mundir til að undirbúa sig fyrir komandi átök. Í þeim fjórum landsliðum sem koma saman í vikunni og um næstu helgi á KA/Þór 9 fulltrúa.

Í u-20 eru það þær Birta Fönn Sveinsdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadóttir. Þær hafa báðar spilað stórt hlutverk hjá meistaraflokki KA/Þórs í vetur og staðið sig með prýði. U-20 ára landslið kvenna undirbýr sig núna fyrir undankeppni HM í handbolta sem fram fer hér á landi helgina 18.-20. mars. 
Fyrir áhugasama stuðningsmenn í Reykjavík er um að gera að skella sér á landsleikina hjá stelpunum og hvetja þær til sigurs en mótherjarnir eru allir gríðarlega sterkir og ljóst að Ísland þarf á öllum þeim stuðning að halda sem hægt er að veita.

Leikirnir eru sem hér segir:
Sun. 20.mar.2016 11.00 Strandgata: Ísland - Austurríki 
Lau. 19.mar.2016 14.00 Strandgata: Ísland - Ungverjaland 
Fös. 18.mar.2016 18.00 Strandgata: Ísland - Hvíta-Rússland

 

Í U-18 voru valdar þær Sunna Guðrún Pétursdóttir, Ásdís Guðmundsdóttir og Aldís Ásta Heimisdóttir. Allar spila þær stórt hlutverk í meistaraflokki KA/Þór sem og í 3. flokki kvenna. Æft verður alla vikuna í Reykjavík og fram yfir næstu helgi en U-18 ára liðið undirbýr sig nú fyrir mót í Svíþjóð í sumar. 

Í u-16 eigum við einnig þrjá fulltrúa. Anna Þyrí Halldórsdóttir, Heiðbjört Anna Guðmundsdóttir og Ólöf Marín Hlynsdóttir voru valdar til æfinga með U-16 sem æfir í Reykjavík um næstu helgi. 

 

Að lokum eigum við svo einn leikmann í nýstofnuðu U-14 ára landsliði kvenna. Það er hún Helga María Viðarsdóttir leikmaður í 5. flokki KA/Þórs. Það landslið kemur einnig saman um næstu helgi í Reykjavík í fyrsta sinn.  

Það eru því samtals níu stelpur frá KA/Þór í yngri landsliðsverkefnum um þessar mundir og er það vel en að sjálfsögðu stefnum við á að fjölga þessari tölu enn frekar á komandi árum.