KA/Þór með góðan sigur á FH - myndir

KA/Þór vann gríðarlega mikilvægan sigur á FH síðastliðinn laugardag. Heimakonur höfðu tögl og hagldir allan tímann, voru sex mörkum yfir í hálfleik 12:6 og unnu að lokum  sigur 27:18  KA/Þór hafði sætaskipti við FH með sigrinum, er með sjö stig í þriðja neðsta sæti en FH er með tveimur stigum minna.

Gunnar Ernir Birgisson þjálfari KA/Þór ræddi við vefinn fimmeinn.is eftir leikinn:

„Leikurinn byrjaði bara frekar jafnt, var jafnt á öllum tölum upp í stöðuna 5-5 minnir mig og korter búið af leiknum. Sóknin aðeins að hiksta enda ekki skrítið svosem. Við höfum ekki spilað neinn æfingaleik í pásunni nema einu sinni við 4. flokk hjá strákunum svo maður bjóst nú ekki við að þetta mundi vera 100% í fyrsta leik eftir 5-6 vikna pásu“.

„Við tókum kipp næstu 12-15 mínúturnar og náðum að komast í 11-5. Vörnin var mjög sterk á þessum kafla, sem og allan hálfleikinn, en sóknin skánaði til muna. Við höfðum sex marka forskot í hálfleik, 12-6, sem var verðskuldað fannst mér. Vörn og markvarsla small mjög vel og Nadia fór á kostum með yfir 50% vörslu í leiknum“.

„Seinni hálfleikurinn var í raun bara framhald af þessum góða kafla hjá okkur í fyrri. Við náum að keyra áfram á þær og auka forskotið úr þessum 6 mörkum í einhver 10-11 mörk og þá var þetta í raun aldrei í hættu. Stelpurnar spiluðu algjörlega frábærlega og ég er mjög stoltur af því sem þær gerðu í leiknum. Við erum búin að æfa vel síðustu daga og þetta kemur bara í framhaldi af því og mjög kærkomið að byrja árið á sigri. Það gerir framhaldið auðveldara og mannskapurinn verður léttari“.

„Það er líka mikilvægt að vera kominn með yfirhöndina í innbyrðis viðureignum við FH því það er mikilvægt þegar litlu munar á liðunum stigalega að eiga betri innbyrðis, svo þetta er alveg geggjað. Nú er bara að halda áfram á þessari braut og reyna að klifra upp töfluna því við ætlum að reyna að koma okkur í topp 8 fyrir lok deildarkeppninnar, það verður erfitt en alls ekki óraunhæft. Það þarf bara að byggja á því sem við gerum vel í dag og halda áfram á þessari braut“.

Mörk KA/Þórs: Arna Kristín Einarsdóttir 11, Birta Fönn Sveinsdóttir 6, Erla Hleiður Tryggvadóttir 3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Steinunn Guðjónsdóttir 1, Aldís Ásta Heimisdóttir 1.

Hér er hægt að skoða myndasyrpu Þóris Tryggvasonar frá leiknum.