KA/Þór með 9 marka sigur í 3. flokki kvenna - myndir

Stelpurnar í 3. flokki kvenna hjá KA/Þór léku um helgina við Fjölni í 1. deildinni. KA/Þór voru fyrir leikinn í 7. sæti deildarinnar með 4 stig í deildinni eftir fimm leiki þar sem þær unnu Gróttu í fyrsta leik tímabilsins og unnu svo Val um síðustu helgi í baráttuleik. Fjölnir var hinsvegar sæti ofar, í 6. sætinu, með jafnmörg stig og því sannkallaður fjögurra stiga leikur fyrir stelpurnar.

Leikurinn var jafn til að byrja með upp í stöðuna 3-3 en þá tóku heimastúlkur góðan kafla þar sem þær skoruðu 3 mörk í röð og komust í 6-3. Munurinn var svo 2-3 mörk KA/Þór í hag út hálfleikinn en þegar hálfleiksflautan gall var staðan 14-12 norðanstúlkum í hag.

Þegar kom inn í síðari hálfleik þá skiptust liðin á að skora fyrstu mínúturnar en svo settu stelpurnar í KA/Þór í flug gírinn og sigu hægt og rólega fram úr Fjölni þar sem þær léku á alls oddi bæði varnar- og sóknarlega ásamt því að Sunna markmaður varði eins og berserkur fyrir aftan. Þessi góða vörn skilaði sér í auðveldum hraðaupphlaupsmörkum og jókst munurinn enn frekar. Þegar lokaflautan gall var munurinn 9 mörk KA/Þór í hag, 29-20.

Markaskor KA/Þórs í leiknum:
Arna Kristín Einarsdóttir 10, Birta Fönn Sveinsdóttir 7, Þórunn Eva Sigurbjörnsdóttir 5, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Rakel Ösp Sævarsdóttir 2, Harpa Rut Jónsdóttir 2 og Þóra Björk Stefánsdóttir 1.

Í markinu varði Sunna 18 skot.

Hér er hægt að skoða myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum.