KA/Þór fékk silfrið í 4. flokki

Stelpurnar taka á móti silfrinu
Stelpurnar taka á móti silfrinu

Nú var að ljúka úrslitaleik 4. flokks kvenna eldra árs í handbolta þar sem lið KA/Þórs mætti HK. Eftir magnaðan spennuleik fóru leikar svo að HK stóð uppi sem sigurvegari.

Stelpurnar virkuðu aðeins stressaðar í upphafi leiks og gerðu sig sekar um þó nokkur sóknarmistök. HK stelpur leiddu því leikinn en stórleikur Arnrúnar í markinu hélt KA/Þór í leiknum. Þegar leið á fyrri hálfleikinn fór sóknin að ganga betur og liðinu tókst að jafna þegar 20 mínútur voru liðnar af leiknum í 6-6. Stelpurnar komust svo yfir í 7-6 en tvö mörk HK í röð tryggðu HK stelpum eins marks forystu þegar flautað var til hálfleiks, 7-8.

Una Kara Vídalín fór mikinn í sóknarleiknum og skoraði 6 af 7 mörkum liðsins en 5 af þeim komu af vítalínunni en Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði hitt markið. Arnrún Eik Guðmundsdóttir varði 9 skot sem gerir um 53% vörslu.

Síðari hálfleikurinn var svo ótrúlega jafn en jafnt var á öllum tölum þangað til að 5 mínútur voru eftir þegar staðan var 13-13, HK leiddi leikinn en alltaf komu okkar stelpur til baka og jöfnuðu. Stelpurnar spiluðu frábæra vörn og vörðu einhver 6 skot í hávörninni. En lokaspretturinn var HK-inga og lokatölur voru 14-16.

Una Kara skoraði 10 mörk í leiknum, þar af 6 úr vítum, Lísbet Perla Gestsdóttir skoraði 2 mörk og Ólöf Marín Hlynsdóttir og Aldís Ásta Heimisdóttir skoruðu 1 mark hvor.
Arnrún Eik Guðmundsdóttir varði 11 skot í leiknum, þar af eitt vítakast.

Vissulega svekkjandi að ná ekki að sigra í dag en stelpurnar eiga hrós skilið fyrir magnaða frammistöðu í vetur, þær urðu Bikarmeistarar og urðu í 2. sæti bæði á Íslandsmótinu sem og í Deildarkeppninni.

Liðið skipar þær Ólöf Marín Hlynsdóttir, Sædís Marinósdóttir, Sigrún Ebba Eggertsdóttir, Guðlaug Sigríður Hrafnsdóttir, Helena Arnbjörg, Áslaug Erlingsdóttir, Katrín Línberg, Lísbet Perla Gestsdóttir, Heiðbjört Anna Guðmundssdóttir, Aldís Ásta Heimisdóttir, Kristín Aðalheiður, Arnrún Eik Guðmundsdóttir, Þórgunnur Þorsteinsdóttir og Una Kara Vídalín.

Þjálfari liðsins er Stefán Guðnason en honum til aðstoðar í dag voru þeir Gunnar Ernir Birgisson og Jóhann Gunnar Jóhannsson.