Flýtilyklar
KA/Þór áfram í Bikarnum
Coca-Cola bikarinn hófst í handboltanum í kvöld þegar KA/Þór sótti Aftureldingu heim. Heimastúlkur úr Mosfellsbænum eru deild neðar en okkar lið auk þess sem okkar lið er nýbúið að leggja Íslandsmeistara Fram að velli. Það mátti þó búast við krefjandi verkefni rétt eins og bikarleikir verða yfirleitt.
KA/Þór skoraði fyrstu tvö mörk leiksins en það varð strax ljóst að lið Aftureldingar ætlaði sér að selja sig dýrt og í kjölfarið var jafnt á öllum tölum en okkar lið leiddi þó alltaf. Þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður tókst stelpunum loksins að ná tveggja marka forskoti á ný og allt útlit fyrir að nú næðist gott tak á leiknum.
En lið Aftureldingar var svo sannarlega ekki á þeim buxunum því í stöðunni 6-8 komu þrjú mörk heimastúlkna í röð og staðan því skyndilega orðin 9-8. Þá kviknaði aftur líf í okkar herbúðum og voru hálfleikstölur 11-11 og mikil spenna í leiknum.
Síðari hálfleikur fór svipað af stað og sá fyrri, okkar lið leiddi en Mosfellingar aldrei langt undan. En þegar líða tók á hálfleikinn kom góður kafli hjá stelpunum sem komust í 13-17. Í kjölfarið hélst munurinn á liðunum í 2-4 mörkum og sigurinn nokkurnveginn í höfn. Mosfellingar gerðu reyndar vel í að gefast ekki upp og minnkuðu muninn niður í eitt mark á lokaandartökum leiksins en komust ekki nær og 25-26 sigur KA/Þórs staðreynd.
KA/Þór er því komið áfram í næstu umferð í Coca-Cola bikarnum en þær þurftu að hafa töluvert fyrir sigrinum í dag og ljóst að stelpurnar þurfa að mæta í alla leiki af fullum krafti svo það fari ekki illa. En markmiði dagsins náð og verður gaman að sjá hvaða lið verður næsti andstæðingur í bikarnum.
Mörk KA/Þórs: Sólveig Lára Kristjánsdóttir 12 mörk, Katrín Vilhjálmsdóttir 3, Martha Hermannsdóttir 3 (öll úr vítum), Ásdís Guðmundsdóttir 2, Ásdís Sigurðardóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Rakel Sara Elvarsdóttir 1 mark og Anna Þyrí Halldórsdóttir 1 mark.
Í markinu varði Olgica Andrijasevic 10 skot og Selma Sigurðardóttir Malmquist 1 skot.