KA/Þór af öryggi í undanúrslitin

Handbolti
KA/Þór af öryggi í undanúrslitin
Stelpurnar í sjöunda himni eftir sigur kvöldsins!

KA/Þór sótti ÍR heim í 8-liða úrslitum Coca-Cola bikars kvenna í handbolta í kvöld. Fyrirfram var nokkur pressa á stelpunum enda deild ofar og höfðu ÍR-ingar því engu að tapa og mættu til leiks af miklum krafti.

Heimastúlkur leiddu leikinn í upphafi og ljóst að þær voru mættar til að gefa okkur hörkuleik. Eftir um tuttugu mínútna leik var staðan 8-7 en þá loks hrukku stelpurnar í gang og þá var ekki að sökum að spyrja.

Stelpurnar gerðu næstu sex mörk leiksins og gerðu í raun strax útum leikinn. Staðan var 9-15 er flautað var til hálfleiks og ljóst að stelpurnar myndu ekki láta það góða forskot frá sér.

Munurinn hélst í fjórum til sex mörkum lengst af í þeim síðari en þegar leið á bættu stelpurnar við og unnu að lokum afar sannfærandi 20-30 sigur og eru því komnar áfram í undanúrslit bikarkeppninnar. Þetta er í annað skiptið á síðustu þremur árum sem KA/Þór fer alla leið í undanúrslitin og ekki spurning að nú ætlum við okkur alla leið í stóra leikinn.

Það tók smá tíma að finna taktinn í kvöld og það er að vissu leiti skiljanlegt enda var pressan öll á okkar liði auk þess sem ÍR liðið gerði vel til að byrja með. En stelpurnar sýndu karakter í að fara ekki á taugum og þegar allt small var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda.

Ásdís Guðmundsdóttir átti frábæran leik en hún gerði 12 mörk, þar af fjögur úr vítum. Aldís Ásta Heimisdóttir gerði 4, Svala Björk Svavarsdóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Ásdís Sigurðardóttir 2, Katrín Vilhjálmsdóttir 1, Arna Valgerður Erlingsdóttir 1, Anna Mary Jónsdóttir 1, Kolbrún Gígja Einarsdóttir 1 og Martha Hermannsdóttir 1 mark.

Matea Lonac var öflug í markinu að vanda og varði 18 skot sem gerir 50% markvörslu. Ólöf Maren Bjarnadóttir varði eitt af þeim þremur skotum sem á hana komu.

Það verður því áfram gaman að fylgjast með bikarkeppninni og áhugavert að sjá hver andstæðingur okkar verður í undanúrslitunum. Auk KA/Þórs eru Fram og Valur komin áfram og kemur í ljós á morgun hvort Haukar eða Fjölnir bætast þar við.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is