Annað mót vetrarins í 5. og 6. flokki í handboltanum fór fram um helgina og stóðu KA strákar sig frábærlega. KA stóð uppi sem sigurvegari í efstu deild í báðum flokkum og ljóst að strákarnir eru þeir bestu á landinu um þessar mundir.
Í 5. flokknum vann KA 1 efstu deildina afar sannfærandi en þeir spiluðu á móti þremur sterkustu liðunum um helgina fyrst. Unnu HK 17-10, ÍR 23-17 og Hauka 16-11 í fyrstu þremur leikjunum. Eftir þrjá sannfærandi sigra var sigur í deildinni tryggður en lokaleikurinn gegn Víkingi tapaðist eftir rólegan leik okkar manna.
Ótrúleg bæting hjá strákunum á stuttum tíma. Liðið hefur tekið stórt skref fram á við í vörninni og áttu liðin lengi vel ekki séns í KA strákana. Einkennandi við liðið hve margir leikmenn voru að skila miklu til liðsins. Hugarfar og liðsheild upp á 10 og strákarnir virkilega vel að því komnir að vinna efstu deildina.
KA 2 stóðu vel fyrir sínu
KA 2 vann þrjá leiki og hafa bætt sig mikið en þeir unnu Gróttu í fyrsta leik 14-10. Næsti leikur gegn Aftureldingu tapaðist en var góður af okkar hálfu. Seinustu tvo leikina unnum við sannfærandi gegn ÍR 2 og Haukum 2. Mjög gott mót hjá strákunum. Spilamennskan einkenndist af leikgleði og baráttu. Vörnin eins og hjá KA 1 hefur lagast mikið og menn grjótharðir þar. Þá voru margir að skila miklu í sókn og mun meira en á seinasta móti.
Strákarnir í KA 1 voru taplausir í 6. flokknum
Í 6. flokknum lék KA 1 í efstu deild og KA 2 í annarri deild en KA er eina félagið á landinu með lið í efstu tveimur deildunum í flokknum. Eftir mikla baráttu tókst strákunum í KA 1 að sigra efstu deildina og það án þess að tapa leik en strákarnir sýndu virkilega flotta frammistöðu og unnu þrjá leiki og gerðu eitt jafntefli.
Þá tókst KA 2 með mikilli baráttu að tryggja áframhaldandi veru í 2. deildinni og eiga strákarnir mikið hrós skilið. Þeir hafa lagt mikið á sig í vetur og halda áfram að bæta sig.