Flýtilyklar
KA steinlá í Hafnarfirðinum
KA mætti í Kaplakrika í dag og mætti þar liði FH í lokaumferð fyrri hluta Olís deildar karla. FH sem er í harðri toppbaráttu endurheimti Ásbjörn Friðriksson úr banni og var ljóst að heimamenn ætluðu sér að svara fyrir óvænt tap í síðustu umferð.
Mikil barátta var í leiknum til að byrja með og skiptust liðin á að leiða. Heimamenn náðu frumkvæðinu en okkar lið aldrei langt undan og stefndi allt í hörkuleik. Staðan var jöfn 10-10 þegar um 12 mínútur lifðu fyrri hálfleiks en þá kom slæmur kafli sem breytti leiknum.
FH-ingar skoruðu næstu fimm mörk leiksins og leiddu í kjölfarið 17-13 er flautað var til hálfleiks. Munurinn hélst í 4-6 mörkum fyrri hluta síðari hálfleiks en þá virtist blaðran spruning hjá okkar liði og lokatölur urðu 36-26 fyrir FH sem kom sér þannig aftur á sigurbrautina.
Vissulega svekkjandi að hafa ekki náð að hanga betur í FH liðinu er leið á leikinn enda gerðu strákarnir vel á fyrsta þriðjung leiksins. En það má ekki gleyma því að þegar FH liðið er með liðið sitt rétt innstillt þá er það eitt besta lið landsins og við fengum að finna fyrir þeim í toppgírnum í dag.
Næsti leikur er enginn smá slagur en þá mætum við nágrönnum okkar í Akureyri á laugardaginn í Höllinni klukkan 19:30. Aðeins munar tveimur stigum á liðunum fyrir leikinn og ljóst að það er miklu meira undir í leiknum en bara bæjarstoltið, við þurfum á ÞÉR að halda á laugardaginn góðu KA-menn!