Baráttan í Olís deild karla heldur áfram í dag þegar KA sækir Stjörnumenn heim í Garðabæinn. Leikurinn hefst klukkan 16:00 og er liður í 5. umferð deildarinnar. Við hvetjum að sjálfsögðu alla KA-menn fyrir sunnan til að drífa sig á völlinn en fyrir ykkur sem ekki komist þá verður leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport.
KA liðið byrjaði tímabilið virkilega vel með tveimur góðum heimasigrum á Akureyri og Haukum. Síðan hafa tveir tapleikir fylgt í kjölfarið og ljóst að strákarnir eru staðráðnir í að koma sér aftur á sigurbraut.
Heimamenn í Stjörnunni eru hinsvegar í smá vandræðum en liðið hefur tapað öllum leikjum sínum til þessa og eru því stigalausir á botni deildarinnar. Liðið hefur þrátt fyrir töpin átt fína leiki gegn ÍBV og FH og spurning hvenær fyrstu stigin detta í hús, það er allavega vonandi ekki í dag.
Það má búast við hörkuleik þar sem hart verður barist um stigin enda í raun fjögurra stiga leikur. Með sigri kemur KA liðið sér sex stigum fyrir ofan Stjörnuna en munurinn verður einungis tvö stig ef leikurinn tapast.