KA tók á móti ÍR í Olísdeild karla í KA-Heimilinu í gær en fyrir leikinn var KA með 5 stig í hörkubaráttu um miðja deild en ÍR-ingar á botninum án stiga. ÍR hafði þó átt frábæran leik gegn Stjörnunni í síðustu umferð og mátti því reikna með krefjandi viðureign.
Leikurinn fór rólega af stað og þegar fyrri hálfleikur var nærri því hálfnaður var staðan jöfn 4-4. Varnarleikur strákanna var öflugur og þar fyrir aftan var Nicholas Satchwell í stuði en bitið vantaði sóknarlega. En hægt og bítandi fór KA liðið að finna taktinn betur og betur í sókninni og tókst að auka hraðann í sínum leik.
Í kjölfarið stungu strákarnir af og náðu mest sjö marka forystu áður en flautað var til hálfleiks og leiddu þá 15-9. Það hefur stundum gengið brösuglega að ná að ganga endanlega frá svona leikjum en það varð heldur betur ekki raunin í þessum leik.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum
Fljótlega var munurinn orðinn átta mörk og í raun bara spurning hversu stór sigur KA liðsins yrði. Gestunum tókst að halda í við strákana í nokkrar mínútur en lentu svo aldeilis á vegg!
Í stöðunni 22-15 hreinlega kaffærðu strákarnir Breiðhyltinga og gerðu næstu tíu mörk leiksins. Á endanum tókst gestunum ekki að skora mark í rétt tæpar 16 mínútur sem er eitthvað sem þú sérð aldeilis ekki oft og hvað þá í deild þeirra bestu. Staðan var því orðin 32-15 áður en ÍR-ingum tókst að ná inn einu marki og lokatölur því 32-16 stórsigur KA staðreynd.
Það var algjörlega frábært að fylgjast með leik okkar liðs í gær, ÍR-liðið er sýnd veiði en ekki gefin og klárt að þeir munu taka einhver stig í vetur. En strákarnir mættu frábærlega til leiks, eftir smá bras sóknarlega í upphafi small leikur þeirra og þeir stigu aldrei af bensíngjöfinni.
Varnarleikurinn var gjörsamlega frábær og þar fyrir aftan var Nicholas Satchwell með 17 varin skot og endaði hann því með yfir 50% markvörslu. Í raun hefði liðið hæglega getað fengið enn færri mörk á sig en gestunum gekk bölvanlega að koma sér í færi og komu þó nokkur mörk þeirra uppúr langskotum er höndin var komin upp.
Árni Bragi Eyjólfsson var markahæstur með 6 mörk, þar af eitt úr víti en það var eina vítakastið í leiknum. Áki Egilsnes, Einar Birgir Stefánsson og Patrekur Stefánsson gerðu allir 4 mörk og þeir Allan Norðberg, Ólafur Gústafsson og Jóhann Geir Sævarsson gerðu 3 mörk hver. Þá gerðu Þorri Starrason, Jón Heiðar Sigurðsson, Andri Snær Stefánsson og Daði Jónsson allir eitt mark.
Frábær frammistaða sem skilar tveimur mikilvægum stigum í hús en það stefnir í gríðarlega harða og spennandi baráttu í deildinni. Næsta verkefni er hinsvegar í bikarkeppninni þar sem KA mætir nágrönnum sínum í Þór í Höllinni á miðvikudaginn. Athugið að engir áhorfendur eru leyfðir á leiknum en hann verður í beinni útsendingu á RÚV og því um að gera að fylgjast vel með nágrannaslagnum.