Ágætu KA félagar
Það er
orðin ágæt hefð hér á þessu afmælishófi að stikla á stóru í því sem gerst hefur í félaginu
okkar á liðnu ári. Hér kemur því annállinn fyrir árið 2010.
Félagsstarfið gengur af gömlum vana en þó urðu nokkrar umhleypingar í aðalstjórn félagsins og skipt var um stjórn og formann á árinu. Stefán Gunnlaugsson lét af störfum sem formaður og Hrefna Torfadóttir tók við. Stefán hefur í áratugi unnið ötullega að málefnum félagsins og eru honum kærlega þökkuð störfin á þessum árum. KA hefur verið fyrirmyndarfélag ÍSÍ undanfarin 4 ár og sá gæðastimpill á félaginu mun fylgja því áfram og nýir stjórnarmenn munu halda merki félagsins áfram á lofti.
Nú mun ég fara yfir starfsemi deildanna í nokkrum orðum.
Starfsemi knattspyrnudeildar, sem er stærsta deild félagsins, með um 400 iðkendur, var fjölþætt síðasta ári. Meistaraflokkur karla átti nokkuð misjöfnu gengi að fagna í 1. deildinni og endaði í 9. sæti. Að tímabilinu loknu létu þjálfarar liðsins, Dean Martin og Steingrímur Örn Eiðsson af störfum og eru þeim færðar innilegar þakkir fyrir þeirra mikla og góða starf.
Nýr þjálfari var ráðinn, Skagamaðurinn Gunnlaugur Jónsson og honum til aðstoðar Ingvar Már Gíslason, gegnheill KA-maður, sem hefur verið í þjálfarateymi yngri flokka.
Gunnar Gunnarsson, Gassi, sem verið hefur framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar KA , lét af störfum í nóvember og hóf störf hjá FH. Gassa eru færðar miklar og einlægar þakkir fyrir óþreytandi elju og dug í þágu KA undanfarin ár. Við starfi framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar tekur Óskar Þór Halldórsson, fréttamaður, og mun hann hefja störf 1. febrúar næstkomandi.
Það urðu mikil tímamót hjá KA sl. sumar þegar félagið fékk til umráða Akureyrarvöll. Jafnframt var farið í endurbætur á vellinum og til stendur að ráðast í endurbætur á stúkunni.
Árlegt N1-mót KA var haldið sem fyrr með miklum glæsibrag og var mótið það fjölmennasta sem haldið hefur verið. Félagið býr yfir miklum mannauð sem leggur krafta sína og metnað í mótið. Án alls þessa góða fólks væri N1-mótið ekki það sem það er. Næsta sumar verður afmælismót, – 25. N1-mót KA.
Fyrir tilstilli yngriflokkastarfsins hjá KA kom enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal með knattspyrnuskóla sinn til Akureyrar í júní og kenndi í fimm daga um þrjú hundruð krökkum af öllu landinu hinar ýmsu knattspyrnulistir á KA-svæðinu.
Knattspyrnudeildin átti 2 landsliðsmenn á árinu en það voru:
Handknattleiksdeildin starfar eins og undanfarin ár án meistaraflokks karla sem nú leikur undir merkjum Akureyri Handboltafélags. Meistaraflokkur kvenna er ennþá við líði hjá okkur og er rekinn í samstarfi við Þór eins og reyndar allir kvennaflokkar í handbolta. Árangur kvennaliðsins, liðs KA/Þórs í meistaraflokki, á síðasta keppnistímabili var ágætur, en liðið endaði í 7. sæti 1.deildar undir stjórn Hlyns Jóhannssonar. Á haustdögum var hins vegar ljóst að megnið af liðinu ætlaði ekki að leika áfram og þá var ákveðið að draga liðið úr efstu deild og senda í staðinn lið í 2.deild kvenna og Martha Hermannsdóttir ráðinn þjálfari. Nú um áramót er liðið í 2. sæti í þeirri deild.
Hápunktur síðasta árs var án efa Íslandsmeistaratitill í 3. fl. karla. Strákarnir stóðu sig frábærlega undir stjórn Jóhanns Gunnars Jóhannssonar og Sævars Árnasonar þjálfara sinna. Aðrir flokkar stóðu sig á viðunandi hátt og iðkendum hefur farið fjölgandi í handknattleiksdeildinni undanfarin 2-3 ár og er heildartala þeirra sem stunda handbolta í félaginu nú um 280.
Handknattleiksdeildin átti 7 landsliðsmenn á árinu, og voru það:
Starfsemi blakdeildar var með hefðbundnu sniði og sendi bæði lið í meistaraflokki karla og kvenna auk fjölmargra yngri flokka. Iðkendur hjá deildinni eru nú um 130 talsins. Frábær árangur meistaraflokks karla verður seint toppaður en liðið var þrefaldur meistari, deildarmeistari, bikarmeistari og Íslandsmeistari. Að vísu er liðið á toppnum nú um áramótin og von um áframhaldandi velgengni. Kvennaliði endaði í 3.sæti í fyrra og er sem stendur í sama sæti. Liðið lék einnig til úrslita um bikarinn síðasta vetur. Auk þess á kvennaliðið blakkonu ársins á Íslandi en það er Birna Baldursdóttir.
Starf yngri flokkanna gekk vel og komu 3 Íslandsmeistaratitlar þar í hús.
Þau umskipti urðu á árinu að Sigurður Arnar Ólafsson sem verið hafði formaður deildarinnar flutti til Noregs og Gunnar Garðarsson tók við. Sigurði Arnari og Heiðu konu hans eru þökkuð frábær störf á liðnum árum.
Blakdeildin átti 6 landsliðsmenn á árinu og voru það:
Júdódeildin er minnsta deild félagsins en líka sú deild sem skilar flestum góðmálmum til okkar. Það er árlegt að röð Íslandsmeistara komi frá deildinni sem Jón Óðinn, nú Waage, rekur að venju með myndarbrag.
Iðkendur Júdódeildar eru nú um 100 og þó strákarnir séu í meirihluta þá á deildin nú harðsnúna sveit kvenna og þar á meðal er júdókona ársins á Íslandi Helga Hansdóttir. Keppendur júdódeildar KA náðu frábærum árangri á Norðurlandamóti á árinu og varð Steinar Eyþór Valsson Norðurlandameistari í -100kg flokki karla yngri en 20 ára og Hans Rúnar Snorrason varð Norðurlandameistari í - 73 kg. flokki karla eldri en 30 ára. Auk þess fékk okkar fólk mikið af silfur- og bronsverðlaunum.
Júdódeildin átti 16 Íslandsmeistara á árinu í mörgum aldurs- og þyngdarflokkum, en það voru:
Í lok svona upplesturs á góðum árangri KA-keppenda verður einnig að minnast allra stjórnarmanna, þjálfara og aðstandenda sem styðja við bakið á keppendunum. Ég segi: kærar þakkir til allra sem starfa og vinna óeigingjarnt starf í félaginu við fjáröflun,mótahald og allt það sem þarf til að starfið gangi með eðlilegum hætti. Að auki eigum við stuðnings- og styrktaraðila um allan bæ í einstaklingum og fyrirtækum og ber að þakka þeim stuðninginn. Ég held að á engan sé hallað þó Útgerðarfyrirtækinu Samherja sé þakkað sérstaklega fyrir ótrúlegan stuðning við íþróttastarf á Akureyri og þar á meðal við okkur KA menn. Kærar þakkir Samherji.
Mig langar að nefna að við opnuðum í lok árs nýuppgerðan heitan pott og gufu í kjallara félagsheimilisins og hlaut aðstaðan nafnið Nellabað í höfuðið á miklum KA manni. Aðstaðan verður opinn til skoðunar í dag.
Þá er þessari stuttu yfirferð yfir starf félagsins 2010 lokið og við horfum björtum augum á árið 2011. Áfram KA.