Jóhannes Bjarnason þjálfar KA/Þór

Jóhannes Bjarnason hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs KA/Þórs í handbolta næsta vetur.  Jóhannes er öllum hnútum kunnugur hjá KA og hefur þjálfað alla flokka félagsins í gegnum tíðina og náð frábærum árangri.

Einhverjar breytingar verða á leikmannahópnum fyrir næsta vetur en Frida Petersen markvörður frá Færeyjum  hefur snúið heim aftur, Ásdís Sigurðardóttir ætlar að leika með FH og Martha Hermannsdóttir verður í barneignarfríi a.m.k. fyrri hluta vetrar.   Verið er að vinna að því að styrkja liðið fyrir átök vetrarins með því að fá tvo erlenda leikmenn til liðsins og jafnvel íslenska líka.

Stefna liðsins er að gera betur en síðasta vetur þegar liðið endaði í 7. sæti N1 deildarinnar.